Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, lítur það alvarlegum augum að starfsfólk lögreglunnar hafi pantað karlkyns fatafellu í fræðsluferð til Auschwitz í Póllandi.
Þetta segir hún í samtali við Ríkisútvarpið en hún tjáði sig ekki um það hvort starfsmennirnir hefðu verið sendir í leyfi. Sagði hún að málið væri til skoðunar og á meðan fengju starfsmennirnir að njóta persónuverndar.
Greint var frá því í gærkvöldi að þrjár starfskonur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefðu pantað þjónustu karlkyns fatafellu í fræðsluferð lögreglumanna og saksóknara við lögregluembætti til Auschwitz í nóvember og komið samferðafólki sínu að óvörum með tiltækinu.
Starfsfólkið sótti þar námskeiðið „Hatursglæpir – uppgangur öfgaafla“. Mikil ólga er sögð vera vegna málsins innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Uppfært kl. 13.50: Halla Bergþóra segir í samtali við mbl.is að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu geti ekki tjáð sig um mál einstakra starfsmanna.