Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands, gagnrýnir stjórnmálamenn fyrir að hafa lítinn skilning á mikilvægi fagþekkingar, tæknilegra rannsókna og hagnýts rannsóknarsamstarfs innlendra og erlendra aðila þegar kemur að byggingarrannsóknum.
Þetta kemur fram í aðsendri grein sem Svana birti í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni „Er enginn þörf yfir byggingarrannsóknir á Íslandi.“
Þar segir hún meðal annars að Askur mannvirkjarannsóknarsjóður, sem ætlað var að taka við við því hlutverki að viðhalda og efla byggingarrannsóknir í landinu, hafi ekki staðið undir væntingum.
„Allt stefnir í hnignun í þessum málum og alvarleg afturför er þegar orðin. Staða byggingarrannsókna á Íslandi er verulegt áhyggjuefni eftir að Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins var lögð niður í skrefum. Fyrst með gengisfellingu á hlutverki hennar við innlimun í Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ), en síðan alveg með niðurlagningu NMÍ árið 2021,“ segir Svana í grein sinni.
„Það er verið að vinna hluta til að þessum lausnum hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og það hefur því miður ekki verið gert frá því Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins var lögð niður og það var mjög bagalegt,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra við mbl.is.
Sigurður segist hafa sett rannsóknarsjóðinn Ask á laggirnar sem hafi virkað vel en hann mætti gjarnan vera stærri og þarf að vera það.
„Það er mikil eftirspurn og við þurfum að nýta alla mannauðinn sem er til í samfélaginu. Það þyrfti að koma á venjulegum rannsóknum á byggingarstöðlum og slíku. Það er hlutur sem þarf að vera til sem gæti alveg verið í eigu háskóla eða verkfræðistofa. Það þarf að vinna að því og það er verkefni sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er að huga að,“ segir Sigurður.
„Það er mikið áhyggjuefni meðal verkfræðinga og tæknifræðinga hve stjórnmálamenn hafa lítinn skilning á mikilvægi djúprar fagþekkingar, tæknilegra rannsókna og hagnýts rannsóknarsamtarfs innlendra og erlendra aðila þegar kemur að byggingarrannsóknum. Við Íslendingar þurfum að endurreisa það góða og mikilvæga starf sem var unnið á Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins,“ segir Svana ennfremur í grein sinni.