Vongóð um að snúa aftur heim

Daníel, Linda og börnin vonast til að komast heim sem …
Daníel, Linda og börnin vonast til að komast heim sem fyrst. mbl.is/Arnþór

„Þótt einhver þjónusta í bænum liggi niðri og ekki sé búið að koma öllu í lag þá værum við til í að snúa aftur heim. Heimilið er fastur punktur í lífi allra,“ segir Daníel Guðni Guðmundsson, íbúi í Grindavík. Þau Daníel, Linda Ósk Kjartansdóttir og börnin þeirra þrjú hafa aðsetur í Vogum á Vatnsleysuströnd, en mánuður er síðan Grindavík var rýmd vegna aðsteðjandi jarðvár. Rætt er í Morgunblaðinu í dag við fólk úr bænum, þar sem það lýsir aðstæðum sínum og ástandi sem litast mjög af óvissu.

„Einbýlishúsið okkar við Heiðarhraun í miðjum sigdalnum í Grindavík virðist vera lítið skemmt. Vissulega eru einhverjar sprungur en við fyrstu sýn er ekkert þannig að ekki megi bæta. Slíkt gerir okkur vongóð um að fólki verði heimilað að snúa aftur heim sem fyrst,“ segir Daníel Guðni.

Unnið er að því að gera við veitukerfin í Grindavík. Fráveitukerfið er mikið skemmt þar sem land hefur sigið um 80 sentímetra og er stór hluti bæjarins fráveitulaus. Einnig er bærinn kaldavatnslaus að hluta, að sögn Jóns Hauks Steingrímssonar, jarðverkfræðings hjá verkfræðistofunni Eflu.

Þá er verið að fylla upp í holur sem mynduðust á sprungunni sem liggur í gegnum bæinn og styrkja götur. Einnig er unnið við varnargarða við Svartsengi. Þar heldur land áfram að rísa. Veðurstofan segir að á meðan kvika heldur áfram að safnast fyrir við Svartsengi séu líkur á öðru kvikuhlaupi sem gæti endað með eldgosi.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert