Bandaríski þjóðsöngurinn hljómaði er gestir komu

Að reka jólavöruverslun sem er opin allan ársins hring er ekki alltaf dans á rósum og fengu hjónin Ragnheiður Hreiðarsdóttir og Benedikt Ingi Grétarsson að kynnast því þegar þau stofnuðu Jólagarðinn í Eyjafirði í maí fyrir rúmum 27 árum.

Fyrsta árið gekk reksturinn brösuglega og þurftu hjónin að hafa samband við handverksaðila og biðja um að fá að skila jólavörunum ellegar greiða reikninginn næsta sumar.

„Það vildi enginn fá jólavöruna til baka 24. desember,“ segir Benedikt kíminn. „Þannig að það í rauninni bjargar okkur, það eru jólavörur fyrsta veturinn og búðin er ekki tóm,“ heldur hann áfram.

Ragn­heiður og Bene­dikt ræddu um rekst­ur­inn, jóla­hefðir og margt fleira í hlaðvarps­viðtali við Morg­un­blaðið í tengsl­um við 110 ára af­mæli blaðsins.

Hægt er að hlusta á brot úr viðtal­inu í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan. Hlaðvarps­viðtalið í heild sinni má finna á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

Enginn venjulegur rekstur

Boltinn fór þó loks að rúlla og örfáum árum síðar var reksturinn farinn að taka við sér. 

„Fjögur fyrstu árin, örugglega bara eins og í mjög mörgum rekstri, eru alltaf basl,“ segir Ragnheiður.

„Þetta er ekki venjulegur rekstur,“ bætir Benedikt þá við.  „Jólin eru bara í mánuð.“

En fólk er að kaupa jólaskraut allt árið.

„Já, já, í dag er það en það var heldur ekki fólk hér alla daga fyrstu fimm árin, eins og er í dag,“ svarar Benedikt.

Einn fylgdist með og hinir borðuðu

Fyrstu árin var opið í Jólagarðinum til klukkan 22 á kvöldin. Heimili hjónanna var skammt frá og gat fjölskyldan fylgst með ferðum fólks út um gluggann á kvöldin.

„Krakkarnir vöndust því að eitt þeirra stóð við gluggann og fylgdist með umferðinni á meðan hinir borðuðu kvöldmat,“ rifjar Ragnheiður upp.

Ef einhver skyldi renna í hlað?

„Já. Seinna fengum við svo hreyfiskynjara sem að spilaði held ég tuttugu lög og eitt af því var bandaríski þjóðsöngurinn, sem hljómaði heima hjá okkur ef einhver kom. En þetta er allt saman svo fjarri,“ heldur hún áfram.

„Og það trúir þessu enginn,“ bætir Benedikt við.

Þriðja kynslóðin heimsækir nú Jólagarðinn

Staðan er allt önnur í dag og er Jólagarðurinn orðið ómissandi stopp þegar Eyjafjörðurinn er sóttur heim.

„Við erum að byrja að fá þriðju kynslóðina. Þeir sem komu þegar þeir voru litlir eru komnir með lítil börn sem þau eru að kynna hvernig þau upplifðu heimsóknina. Það slær jólahjartað,“ segir Benedikt. 

Hringferðin kíkti í Jólahúsið.
Hringferðin kíkti í Jólahúsið. mbl.is/Brynjólfur Löve
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert