Agnar Már Másson
Mál starfskvenna lögreglunnar sem keyptu þjónustu fatafellu í fræðsluferð til Póllands hefur ekki ratað á borð Landssambands lögreglumanna. Þetta staðfestir Fjölnir Sæmundsson, formaður landssambandsins, í samtali við mbl.is.
Greint var frá því á föstudag að þrjár starfskonur lögreglunnar hafi pantað karlkyns fatafellu í fræðsluferð til Póllands um hatursorðræðu í nóvember. Ferðin var á vegum menntaseturs lögreglunnar.
„Landssambandið er ekkert að skipta sér að málunum nema félagsmenn biðji um það,“ segir Fjölnir. „Við höfum enga aðkomu að þessu.“
Lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu kveðst líta málið alvarlegum augum en sagði í samtali við mbl.is í gær að lögreglan geti ekki tjáð sig um mál einstakra starfsmanna.
Drífa Snædal, talskona Stígamóta, segir það áhyggjuefni að starfsmenn lögreglunnar hafi keypt sér „aðgang að líkama annarra“.