Flugakademían mismuni nemendum við endurgreiðslur

Þegar Flugakademía Keilis lokaði fengu nemendur val um að fá …
Þegar Flugakademía Keilis lokaði fengu nemendur val um að fá endurgreitt fyrir þá flugtíma sem ekki voru nýttir. Sumir hafa fengið endurgreitt, en aðrir ekki. Ljósmynd/Af heimasíðu Keilis.

Fyrrverandi nemandi Flugakademíu Íslands krefur skólann um endurgreiðslu á um 7 miljónum króna sem hún greiddi í flugtíma sem aldrei voru flognir. Lögmaður nemandans segir að skólinn fylgi ekki lögum og mismuni nemendum við endurgreiðslur.

Í september lokaði Flugakademía Íslands (Icelandic Aviation Academy ehf.) eftir langvarandi rekstarvanda. Akademían var dótturfélag Keilis en við lokun hennar var flugnámið fært undir Flugskóla Reykjavíkur. Þá fengu nemendur akademíunnar valkost: annaðhvort héldu þeir áfram námi hjá Flugskóla Reykjavíkur eða fengju endurgreitt fyrir þá fyrirframgreidda flugtíma sem ekki voru nýttir.

Nemandi fyrrum Flugakademíu Íslands valdi hið síðarnefnda, að fá endurgreitt fyrir þá tíma sem aldrei voru flognir. Hún ætlaði sér að halda flugnáminu áfram annars staðar en vildi hafa skýra valkosti um það hvernig hún ráðstafi fjármunum sínum. Í nóvember komst nemandinn aftur á móti að því að Flugakademía Íslands hefði þegar gert upp við suma nemendur en ekki sig.

Ragnar Þ. Jónasson, lögmaður nemandans, segir að Flugakademían skuldi henni hátt í 7 milljónir króna. Hún hafi safnað fyrir náminu frá fermingu auk þess að taka lán fyrir því.

Ragnar Þórður Jónasson lögmaður.
Ragnar Þórður Jónasson lögmaður. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er ekki löglegt ferli“

„Svörin sem hún fékk frá skólanum voru að hún yrði bara að bíða róleg,“ segir Ragnar, og bætir við að skólinn hafi vísað til þess að hann væri í svokölluðu „lokunarferli“ án þess að skýra hvað fælist í þeirri aðgerð.

Ragnar segir að slíkt ferli eigi sér ekki stoð í lögum. Hún hafi ekki fengið að vita hvenær hún myndi fá endurgreitt þá upphæð sem hún greiddi fyrir fram og heldur ekki fengið nokkra tryggingu um að hún fengi endurgreitt.

„Þetta er ekki löglegt ferli sem er í gangi þarna,“ segir Ragnar. „Enda gera hin lögmætu ferli, það er greiðslustöðvun og nauðasamningur, ráð fyrir aðkomu dómstóla þegar heimild er veitt, auk þess sem jafnræði kröfuhafa er tryggt um upplýsingar og endurgreiðslur.“

Loðin svör frá ráðuneytinu

Ragnar segist þá hafa krafið skólann um svör – „svör sem ég fæ ekki“ – en á endanum ræddi hann við lögmann akademíunnar.

„Hún [lögmaður skólans] gat ekki upplýst um eitt né neitt,“ segir Ragnar en bætir við að lögmaðurinn hafi þó sagt honum að menntamálaráðuneytið hafi haft aðkomu að málinu.

Ragnar leitaði því til ráðuneytisins og spurði hvaða fulltrúi þess hefði aðkomu að lokunarferlinu svokallaða. Fékk hann þá skrifleg svör frá tveimur starfsmönnum ráðuneytisins að ráðuneytið væri „ekki aðili að rekstri“ Flugakademíu Íslands – svör sem Ragnar telur vera útúrsnúning. Hann segir ljóst að ráðuneytið hafi ekki komið beint að rekstrinum en það hafi hins vegar haft hönd í bagga í „lokunarferlinu“.

„Síðast er ég vissi átti ríkið 51% hlut í Keili-skóla,“ segir Ragnar, sem telur að ríkið beri þar af leiðandi ábyrgð á því að tryggja jafnræði um afgreiðslur mála nemenda og stuðli ekki að þeirri „grófu mismunum“ sem sé í gangi í ferli sem ráðuneytið virðist taka þátt í.

„Gengið gróflega“ í veski nemenda

Þrír aðrir nemendur Flugakademíu Keilis hafa leitað til Ragnars. Hann segir að það sé þó vegna þess að þeir hafi verið skikkaðir að fara í endurþjálfun hjá Flugakademíu Íslands og tveimur þeirra auk þess gert að greiða um hálfa milljón kr. á mann til skólans.

Ástæða endurþjálfunar væri sú að annars kæmust þau ekki í bóklegt próf hjá Samgöngustofu. Þrátt fyrir það segir Ragnar að sögn nemenda séu þess dæmi að nemandi í sambærilegri stöðu hafi fengið að sleppa við endurþjálfun.

„Það virðist hafa verið gengið mjög gróflega gegn nemendum til að ná inn peningum af þeim og misjafnt hvernig var farið með þau og mikið ójafnræði,“ segir Ragnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert