Hlaðvarp tekið upp í þrettán stiga frosti

Móttökurnar voru hlýjar þó úti væri kalt. Fengu blaðamennirnir teppi …
Móttökurnar voru hlýjar þó úti væri kalt. Fengu blaðamennirnir teppi og refapels frá Úkraínu til að halda á sér hita. mbl.is/Brynjólfur Löve

Blaðamaður horfði undrandi augum á hjónin í Jólagarðinum eftir að þau höfðu leitt hana inn í lítið rjóður við Sveinsbæ.

„Getur verið að þau séu að stinga upp á því að taka viðtalið upp utandyra í þessum kulda?“ hugsaði hann með sér – og svo reyndist rétt.

Undirrituð var ásamt samstarfsfélögum sínum komin í Jólagarðinn til að taka upp hlaðvarpsviðtal við Benedikt Inga Grétarsson og Ragnheiði Hreiðarsdóttur, hjónin sem hafa rekið Jólagarðinn í rúm 27 ár.

Viðtalið var hluti af hringferð Morgunblaðsins í tilefni af 110 ára afmæli blaðsins. 

Snæviþakin jörð tók á móti blaðamönnunum þegar þeir stigu út …
Snæviþakin jörð tók á móti blaðamönnunum þegar þeir stigu út úr hlýjum bílnum. mbl.is/Brynjólfur Löve

Snæviþakin jörð

Móttökurnar í Jólagarðinum voru afar hlýjar en það breytti því ekki að úti var þrettán stiga gaddur, sólin að setjast og jörðin snæviþakin. Gufustrókur fyllti loftið í hvert sinn sem einhver tók til máls – já eða andaði.

Blaðamennirnir tveir og tæknimaður höfðu ekið frá höfuðborginni deginum áður og höfðu varið bróðurparti ferðarinnar inni í bíl við þægilegar 22,5 gráður, með sætishitann í botni.

Var undirrituð klædd í strigaskó, þunnar buxur og skyrtu, og einungis kápu og húfu til að halda kuldanum frá, sem, eftir á að hyggja, reyndist ekki svo gáfulegt. Alla vega ekki við þessar aðstæður.

Benedikt og Ragnheiður ræddu áhugaverða sögu Jólagarðsins í hlaðvarpinu.
Benedikt og Ragnheiður ræddu áhugaverða sögu Jólagarðsins í hlaðvarpinu. mbl.is/Brynjólfur Löve

Refapels frá Úkraínu og teppi 

„Ég þarf að bera þessa hugmynd undir samstarfsmenn mína,“ bar undirrituð fyrir sig. „Við komum að sunnan sjáðu til.“

Hjónin litu hvort á annað sposk á svip enda bæði vön norðlenska vetrinum.

Samstarfsfélagarnir, sem þá stóðu inni í Sveinsbæ að virða fyrir sér úrvalið af jólahandverkinu, voru jafn undrandi þegar hugmyndin um útihlaðvarp var borin upp. 

Benedikt og Ragnheiður voru þó afar sannfærandi og játuðu Morgunblaðsþremenningarnir sig loks sigraða eftir að hjónin höfðu dregið fram teppi og glæsilegan refapels frá Úkraínu til að halda hita á mannskapnum.

Þá var einnig tekin ákvörðun um að færa upptökustaðinn á bekk nær eldstæði svo tæknimaðurinn gæti hlýjað sér á meðan Ragnheiður og Benedikt fóru yfir sögu Jólagarðsins, jólahefðir og margt fleira í hringferðarhlaðvarpi Morgunblaðsins.

Voru það einungis tærnar sem voru farnar að finna fyrir kuldanum þegar upptökunni lauk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert