Skjálftahrinan suður af Íslandi kann að vera merki um sambærilegan atburð og nú á sér stað á Reykjanesskaga.
Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, bendir á þetta og segir skjálftana hafa orðið við suðurenda Reykjaneshryggs, um 900 kílómetra suður af Íslandi.
Þar sé eitt mikilvægasta þverbrotabeltið í Norður-Atlantshafi, Bight-þverbrotabeltið, en sprungukerfi þess sýni gliðnunarstefnu flekamóta Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans.
Í færslu á vef rannsóknareiningar HÍ í eldfjallafræði og náttúruvá segir Ármann að svæðið hafi verið mælt árið 2013 í rannsóknarverkefni undir stjórn hans og dr. Fernando Martinez frá Havaí-háskóla.
„Eins og sjá má á kortinu eru flestir skjálftarnir sunnan Bight-þverbrotabeltisins, en að mestu bundnir við flekamótin er marka gliðnun milli flekanna tveggja,“ skrifar Ármann, og vísar til kortsins hér að ofan.
Þarna sé því hugsanlega um annan eins atburð að ræða og nú gengur yfir á Reykjanesskaga.
„Það verður fróðlegt að koma aftur á svæðið,“ skrifar hann og bætir við að áform séu uppi um aðra ferð til sýnatöku á næstu árum.