„Nei, við erum ekki með neina utanaðkomandi hjálp, við gerum þetta bara sjálf,“ segir Ragnheiður Hreiðarsdóttir þegar blaðamaður spyr hver eigi heiðurinn af hönnun Jólagarðsins og öllu því skemmtilega skrauti sem þar er að finna.
Ragnheiður opnaði Jólagarðinn ásamt eiginmanni sínum, Benedikt Inga Grétarssyni, í maí árið 1996. Garðurinn er einstaklega hrífandi svo ekki sé minnst á jólalegur.
Sveinsbær, húsið sem margir þekkja einfaldlega sem Jólahúsið, er fallega rauður og skartar þak hans nokkrum risavöxnum konfektmolum og jólastaf sem ekki má borða.
Hjónin rifja upp upphaf rekstursins, ræða jólahefðir og margt fleira í hlaðvarpsviðtali við Morgunblaðið í tengslum við 110 ára afmæli blaðsins.
Hægt er að hlusta á brot úr viðtalinu í spilaranum hér að ofan. Hlaðvarpið í heild sinni má nálgast á öllum helstu hlaðvarpsveitum.
„Við vorum svo hrædd upphaflega þegar við vorum að láta inn teikningar af húsinu til samþykkis af sveitarstjórn og byggingarfulltrúa að við létum teiknarann ekki setja konfektið á þakið því að við vorum svo hrædd um að við myndum ekki fá að setja það á þakið,“ segir Benedikt.
„Þannig nóttina áður, eða tveimur nóttum áður en við opnuðum, þá var konfektinu komið fyrir,“ heldur hann áfram.
Hafa hjónin hingað til ekki fengið neinar athugasemdir við fyrirkomulagið.
Konfektið var ekki hluti af deiliskipulaginu?
„Nei, það er það ekki“ svara hjónin í kór.