Vígðu ný mannvirki í Bláfjöllum

Verkefnið er samvinnuverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
Verkefnið er samvinnuverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Óttar

Ný mannvirki í Bláfjöllum voru vígð við hátíðlega athöfn í gær en framkvæmdirnar eru á undan áætlun, að sögn framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem telur framkvæmdirnar vera gríðarlega lyftistöng fyrir útivistarfólk.

Umliðin ár hafa staðið yfir umfangsmiklar framkvæmdir og endurnýjun mannvirkja á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins í Bláfjöllum. Nýjar skíðalyftur, Gosi og Drottning, voru teknar í notkun síðasta vetur og snjóframleiðslubúnaður tilbúinn til notkunar. Þá hefur aðstaða til gönguskíðaiðkunar einnig verið bætt.

Klippt var á borða í íslensku fánalitunum og mannvirkin voru …
Klippt var á borða í íslensku fánalitunum og mannvirkin voru þannig formlega vígð. mbl.is/Óttar

Samstarfsverkefni sveitarfélaga

Framkvæmdirnar eru hluti af stóru samstarfsverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Í gær voru nýju mannvirkin formlega vígð en meðal þátttakenda voru borgarstjóri og bæjarstjórar höfuðborgarsvæðisins ásamt öðrum kjörnum fulltrúum, forsvarsmönnum skíðafélaga á höfuðborgarsvæðinu ásamt innlendum og erlendum framkvæmdaaðilum verkefnisins.

Af vígsluathöfninni.
Af vígsluathöfninni. mbl.is/Óttar

Framkvæmdir gengið vel

„Framkvæmdir hafa gengið alveg gríðarlega vel og eru á undan áætlun,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Hann segir að flest bendi til þess að kostnaður vegna verkefnisins haldist innan við fjármálaáætlun þess, sem gerir ráð fyrir þriggja milljarða króna útgjöldum. Árið 2018 skrifuðu sveitarfélögin undir samning um uppbyggingu í Bláfjöllum og Skálafelli.

Nýjar skíðalyftur, Gosi og Drottning, voru teknar í notkun síðasta …
Nýjar skíðalyftur, Gosi og Drottning, voru teknar í notkun síðasta vetur og snjóframleiðslubúnaður tilbúinn til notkunar. mbl.is/Óttar

„Lyftistöng“ fyrir útivistarfólk

Eins og fyrr segir er búið að bæta aðstöðu fyrir gönguskíðafólk í Bláfjöllum. Páll segir að það hafi m.a. verið gert með uppsetningu sérstaks sérhannaðs salernis, aukinni lýsnigu og snjógirðingu.

Þá er snjóframleiðsla einnig hafin í fjöllunum sem þýðir að betra undirlag af snjó geti verið í fjallinu og þar að leiðandi hægt að opna fyrr og loka seinna á hverju ári. Sérstök borhola var gerð til þess að dæla vatni í vélina.

Páll segir framkvæmdirnar vera „gríðarlega mikil lyftistöng fyrir skíða- og útivistarfólk á höfuðborgarsvæðinu öllu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert