Í nokkurn tíma hafa breytingar verið fyrirséðar á stöðu veðurkerfa og lofthringrásinni.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur fjallar um yfirvofandi breytingar á veðurvefnum Bliku. Segir hann að heimskautahvirfillinn í heiðhvolfinu hafi að undanförnu tekið að styrkjast.
Það, ásamt sveiflum í ríkjandi upp- og niðurstreymissvæðum á Kyrrahafinu síðustu daga, verði þess valdandi að aftur verði suðvestanátt í háloftunum við Ísland.
Af þeim sökum sé von á braut lægða nærri landinu, í um sjö til tíu daga.
„Sú fyrsta á miðvikudag, með mildum fleyg norður yfir land og slagveðursrigning fylgir,“ skrifar Einar.
Hann segir síðustu daga hafa verið um margt óvenjulega.
„Langvarandi stillur og frosthörkur sums staðar norðanlands. Alls engin úrkoma um mikinn hluta landsins einnig,“ skrifar hann og víkur svo að spá næstu tíu daga.
„Vel sést hvað umskiptin eru afgerandi. Í stað Grænlandshæðar og NA-þáttar vindsins er spáð lægðasvæði fyrir vestan land og með nokkuð hvössum SV-þætti vindsins. Ekki síður eru veðrabreytingar í vændum í V-Evrópu og N-Skandinavíu.“