„Alvarlegt atvik í mörgum skilningi“

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. mbl.is/Hari

Glimmergusan sem Bjarni Benediktsson fékk yfir sig í Veröld er alvarlegt atvik í mörgum skilningi.

Þetta segir Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, rithöfundur, fyrrverandi alþingismaður og deildarforseti við félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst í færslu á Facebook.

Ekki sátt við hálfvelgjuhátt stjórnvalda

„Mér finnst ekki rétt að grínast með það, er ég þó engin skoðanasystir Bjarna og hreint ekki sátt við hálfvelgjuhátt íslenskra stjórnvalda gagnvart þjóðarmorðinu á Palestínumönnum.

Þetta atvik afhjúpar margt, til dæmis andvaraleysi okkar gagnvart öryggisógnum af ásetningi, sem eru vaxandi vá, jafnvel í okkar litla, friðsama samfélagi. Það afhjúpar líka skeytingar- og virðingarleysi fyrir friðhelgi fólks á opinberum vettvangi,“ skrifar Ólína.

„Það sýnir það sem ég leyfi mér að kalla „skoðanafrekju“ - og ég nota það orð, því ég get ekki borið neina virðingu fyrir svona aðferðum.

Ég verð því að segja að mér var ekki skemmt þegar ég sá atvikið, enda ekki ljóst alveg strax hverju var verið að kasta yfir manninn. Þetta hefði getað verið sýra en ekki glimmer og ráðherrann var gjörsamlega varnarlaus.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert