„Ég held að þetta endi með eldgosi“

Hinn reyndi björgunarsveitarmaður Otti Rafn Sigmarsson sem er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag þarf ekki að hugsa sig lengi um þegar hann er spurður hvort hann eigi von á að atburðarrásin sem nú er í gangi, endi með gosi. „Já. Ég held að þetta endi með eldgosi.“ Hann segir að reynslan af aðdraganda fyrri gosa í þessari eldgosahrinu á Reykjanesi bendi eindregið til þess.

Hann telur skýrasta merkið um að atburðum sé ekki lokið, að kvika er enn að flæða undir Svartsengi. Otti á síður von á að eldgos komi upp í grennd við Grindavík en telur þó að það séu allar líkur á gosi, miðað við aðdraganda gosanna í Fagradalsfjalli.

Fuglarnir eru komnir aftur til Grindavíkur en þegar skjálftahrinan var sem kröftugust var ekkert fuglalíf á svæðinu. Hann segir óvissuna og biðina erfiðasta. Það sé í raun ekkert til berjast við, eða ganga í.

Áður en hægt verður að opna Grindavík á nýjan leik er mikilvægt að bærinn sé öruggur. Enn er verið að kortleggja sprungusvæði og menn hafa séð þegar frá leið að gras hefur sigið á nokkrum stöðum og þar undir geta verið holrúm. Otti Rafn bendir á að hættumat Veðurstofunnar sé eitthvað sem verði að horfa til en í því mati leggja sérfræðingar mat á þá atburði sem eru í gangi. Hann segir ljóst að nokkuð sé í að bærinn verði opnaður á nýjan leik.

Otti er í tímabundnu leyfi sem Formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar en er einnig meðlimur í björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík sem hefur haft í nógu að snúast frá því að Reykjaneseldar hófust

Otti Rafn Sigmarsson er gestur Dagmála í dag. Allur þátturinn er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert