Fundur hófst í kjaradeilu Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins, sem semja fyrir hönd Isavia, í Karphúsinu klukkan 14 í dag.
Flugumferðarstjórar hafa boðað verkfall á morgun og á fimmtudag, sex klukkustundir í senn á bilinu 4 til 10 að morgni. Verði af fyrirhugaðri vinnustöðvun stöðvast allt flug á áðurnefndum tíma að undanskildu sjúkraflugi og öllu flugi á vegum Landhelgisgæslunnar.
„Það eru viðræður í gangi og á meðan svo er þá er von en ég er ekki bjartsýn,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is.
Hún segir að það sé ákall frá fólki og fyrirtækjum í landinu að gerðir séu skynsamir langtíma kjarasamningar.
„Það er enginn sem vill hafa þessa verðbólgu og þetta vaxtastig sem við búum við og það er stóra verkefnið,“ segir Sigríður Margrét.
Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, sagði í samtali við mbl.is fyrir helgina að félagið fari fyrst og fremst fram á á launaleiðréttingu, þar sem flugumferðarstjórar telji stéttina hafi dregist aftur úr.