Vinnan við varnargarðana í kringum Svartsengi verður langt komin síðar í þessari viku, að sögn Fannars Jónassonar, bæjarstjóra Grindavíkur.
„Það þarf að huga að vegum og aðkomuleiðum sem liggja núna þar sem garðarnir ná yfir. Það þarf að finna út úr því en að öðru leyti held ég að varnargarðarnir sjálfir séu mjög langt komnir,” segir hann, spurður úr í stöðuna á verkefninu.
„Þetta er gríðarlega mikið mannvirki. Að koma og sjá hvað þetta eru stórar og miklar framkvæmdir er afar sérstakt,” segir Fannar og bætir við að þetta sé vitaskuld gert af illri nauðsyn vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.
Hvað varðar varnargarðana í kringum Grindavíkurbæ þá er frumhönnun lokið en ekki er búið að taka ákvörðun um framhaldið. Afla þarf samþykkis fyrir framkvæmdinni og er málið á forræði almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og fjárveitingavaldsins, að sögn Fannars.
„Ég held að við þurfum að horfa á það af mikilli alvöru,” segir hann spurður hvort hann vilji sjá garðana rísa fyrir utan bæinn. Nákvæm kostnaðargreining vegna framkvæmdanna er ekki klár en að sögn bæjarstjórans skiptir kostnaðurinn milljörðum.
Vinna hefur staðið við að kortleggja og fylla upp í sprungur sem hafa myndast í Grindavík. Engin slys hafa orðið í tengslum við þær, að sögn Fannars. Eftir á að fara nákvæmar yfir ýmis svæði og þangað til verkinu er lokið er ekki óhætt að vera á ferðinni á opnum svæðum þar sem vitað er að sprungur gætu verið.
Spurður út húsnæðismál Grindvíkinga svarar Fannar að leigutorgið sem var sett af stað hafi virkað vel og margar heimsóknir komið þangað inn. Dregist hefur að koma öðrum eignum á markað fyrir Grindvíkinga en smám saman er að rætast úr því. Hann segir erfitt að finna húsnæði, sérstaklega þegar húsnæðisskortur er á höfuðborgarsvæðinu. Félögin Bríet og Bjarg hafi þó komið til aðstoðar, auk þess sem stéttarfélögin hafi komið „mjög myndarlega” að því að losa um húsnæði.
„Það eru vissulega alltof margar fjölskyldur sem búa ekki við varanlegt húsnæði,” segir Fannar. Jafnvel nái það ástand fram yfir hátíðirnar. „Það sem allir vilja sjá fyrir sér er að það sé enginn á hálfgerðum hrakhólum fyrir jólin en svo erum við að horfa til lengri tíma. Margir foreldrar horfa til skólaársins, að nemendur ljúki því þar sem fjölskyldan er niðurkomin,” bætir hann við.
Náttúruhamfaratryggingar Íslands telja að tjónið á eignum Grindavíkurbæjar geti numið allt að 10 milljörðum króna. Fannar segir þá tölu ekki koma á óvart.
„Vissulega eru fleiri eignir skemmdar heldur en búist var við eftir að sigdalurinn myndaðist en miðað við þann fjölda eigna sem nú þegar hefur verið skoðaður þá þarf þetta ekki að koma á óvart. Það eru ákveðnar matsaðferðir á bak við þetta og þetta eru efri mörkin,” greinir hann frá.
Bæjarstjórinn segir fjölda verkfræðinga og úttektaraðila vinna í því að meta skemmdirnar. Reynt sé að flýta vinnunni í samvinnu við Náttúruhamfaratryggingar Íslands þannig að fólk fá svör, sérstaklega ef húsnæðið er óíbúðarhæft. Gera þurfi upp þau mál sem fyrst.
Inntur álits á því hvenær fólk getur flutt aftur til Grindavíkur kveðst Fannar ekki geta lagt mat á það frekar en nokkur annar. Landris sé enn á svæðinu og kvikugangur liggi undir bænum.
„Við vonumst til að komast heim sem fyrst en það er öryggi íbúanna sem er í fyrirrúmi. Við verðum að horfa til ráðlegginga okkar færustu vísindamanna.”
Hann heldur áfram:
„Það er líka mjög sérstakt að keyra um bæinn sinn og sjá nánast engan mann á ferli, enga bíla og ekkert líf. Það er hryggileg staða, sérstaklega þegar nær dregur jólum,” segir Fannar.
Íbúafundur fyrir Grindvíkinga verður í anddyri Laugardalshallar annað kvöld. Að sögn Fannars verður fundinum einnig streymt og hann tekinn upp þannig að allir geti séð hvað fram fór.