Meiri öryggisgæsla verður viðhöfð á samkomu til minningar um helförina en til stóð vegna mótmælanna síðastliðinn föstudag. Nánar tiltekið þegar mótmælendur skvettu rauðu glimmeri yfir Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra á hátíðarfundi í Veröld, húsi Vigdísar við Brynjólfsgötu.
Þetta kom fram í samtali Morgunblaðsins við fulltrúa erlends ríkis hér á landi sem sagði að hætt hefði verið við að hafa opið á minningarstund um helförina. Það væri ekki lengur á það hættandi. Þess í stað yrðu send boðskort og fylgst með því hvort gestum hefði verið boðið.
Annar fulltrúi erlends ríkis sem Morgunblaðið ræddi við sagði það koma mjög á óvart að mótmælendur gætu tekið yfir fundi í Háskóla Íslands með þeim hætti sem raun ber vitni. Framganga mótmælenda hefði ekki verið í þágu málstaðarins. Þá kæmi á óvart hversu tíð og fjölmenn mótmælin hefðu verið vegna þessa á Íslandi síðustu vikur.
Þá túlkaði erlendur diplómati, sem Morgunblaðið ræddi við, stöðuna á Gasa þannig að stjórn Hamas hefði tekist að koma málefnum Palestínu fremst á dagskrá alþjóðamála. Palestínumálið hefði verið númer 20 á listanum yfir helstu viðfangsefni alþjóðamála en væri nú á allra vörum. Ísland virðist ekki vera nein undantekning í þessu efni.
Rætt var við Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjón alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, í Morgunblaðinu á laugardag. Karl Steinar sagði af því tilefni að lögreglan væri að kanna hvort auka mætti öryggisráðstafanir í kringum æðstu ráðamenn landsins. Hann taldi að mótmælendurnir í Veröld hefðu gengið of langt.