Hissa að Tómas hafi látist

Snorri Sturluson verjandi Steinþórs og Steinþór Einarsson.
Snorri Sturluson verjandi Steinþórs og Steinþór Einarsson. mbl.is/Sonja

Steinþór Einarsson, sem ákærður er fyrir að hafa orðið manni að bana á Ólafsfirði í október á síðasta ári, kveðst hafa verið hissa að heyra að Tómas Waagfjörð hafi látist eftir átök þeirra. 

Steinþór gaf skýrslu fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra nú í morgun um atburðarásina sem endaði með láti Tómasar 3. október 2022. Aðalmeðferð í málinu hófst í dag. 

Neitar Steinþór sök í málinu og ber fyrir sig neyðarvörn. 

Reiður yfir aðgerðaleysi lögreglu

Var Steinþór staddur á Ólafsfirði yfir helgina til að aðstoða vin sinn við flutninga. Hitti hann vinkonu sína, sem var gift Tómasi. Steinþór sagði fyrir dómi að samband Tómasar og konu hans hefði verið stormasamt allt frá upphafi. 

Lögregla var kölluð til daginn áður en atvikið átti sér stað, en þá höfðu Tómas og kona hans átt í deilum. Steinþór segir sér hafa blöskrað aðgerðaleysi lögreglunnar og telur að hún hefði átt að grípa inn í. 

Vegna ósættis milli Tómasar og konu hans bauðst henni að gista þremur húsum frá heimili þeirra, þar sem Steinþór dvaldi. Fór það illa í Tómas að hún skyldi vilja eyða nóttinni þar. Segir Steinþór hann hafa linnulaust reynt að fá hana aftur heim. 

Þar dvaldi einnig vinkona konunar, og höfðu þær verið að drekka áfengi þá um kvöldið. Steinþór segist ekki hafa verið að drekka, hann hafi drukkið 1-2 glös fyrr um kvöldið og reykt kannabis. Sagðist hann telja sig hafa verið edrúmanninn á svæðinu. 

„Ég hélt að þetta væri kylfa“

Frændi Tómasar kom í heimsókn til að reyna að fá konuna með sér heim en hún vildi ekki fara með honum. Sagði Steinþór honum að hún væri orðin drukkin og best væri að hún gisti þar sem hún væri. 

Skömmu síðar kom Tómas, svo stuttu að töldu Steinþór og konan að frændinn væri kominn aftur. Opnaði konan þá fyrir honum og kom hann inn í eldhús, þar sem Steinþór og konan höfðu setið og rætt saman. 

„Hann fór að rífast eitthvað. Þá fauk eitthvað í mig og ég henti gleraugum í átt að honum og sagði honum að drulla sér út. Hann hljóp ekki en strunsaði í átt að mér, hann byrjaði að taka eitthvað upp úr buxnastrengnum. Ég hélt að þetta þetta væri kylfa,“ sagði Steinþór þegar hann lýsti atburðarásinni. 

Það sem Tómas tók úr buxnastreng sínum var hnífur með löngu blaði. Stakk hann Steinþór í kinnina svo að jaxl klofnaði. Náði hann svo að stinga hann í lærið en náði þá Steinþór taki á Tómasi. 

„Ég sný mér við og segi henni að hringja í sjúkrabíl og sé bara blóðið og var dauðhræddur um sjálfan mig. Ég öskraði á hann varstu að stinga mig þarna helvítið þitt. Ég var bara að reyna að ná af honum hnífnum, það var markmiðið,“ sagði Steinþór. 

Vissi daginn eftir að Tómas væri látinn

Steinþór náði að ýta Tómasi frá sér svo Tómas féll í horn eldhúskróksins og Steinþór fram í stofuna, við það fellur hnífurinn inn í stofuna og eltir hann hnífinn og stingur í blómapott. Taldi hann Tómas vera á hælum sér og fór inn í herbergi að reyna að stoppa blæðinguna í lærinu. 

Á meðan öllu þessu stendur er konan í símanum við neyðarlínuna. Þegar sjúkrabíll kemur á svæðið reyna þeir að endurlífga Tómas og fara síðar út með hann á börum að sögn Steinþórs. 

„Það var ekki fyrr en daginn eftir að Snorri sagði mér að hann hefði látist. Ég bjóst ekki við því,“ sagði Steinþór. 

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari spurði Steinþór hvort hann hafi á einhverjum tímapunkti náð haldi á skefti hnífsins og neitaði hann því. Kunni hann ekki skýringar á þeim tveimur stungum sem Tómas varð fyrir, en önnur fór í mjaðmarslagæðina. Lést hann af sárum sínum. 

Hver stakk jógaboltann?

Ein af þeim spurningum sem bæði héraðssaksóknari og dómari í málinu vilja fá svör við er hvernig það kom til að jógabolti, sem var í íbúðinni, var stunginn. 

Fannst hann á vettvangi og hafði hann verið stunginn margsinnis. 

Spurður út í boltann segist Steinþór ekki hafa veitt honum mikla athygli. Hann hafi verið í herberginu sem hann gisti í, en tveimur dögum áður hafi hann sett hann fram í stofu vegna þess hve herbergið var lítið. 

Sagðist hann ekki hafa hugmynd um hver stakk boltann, hvorki hann né Tómas hafi stungið hann. 

Sagðist ætla myrða „hobbitann“

Á meðal gagna í málinu eru skilaboð sem Steinþór sendi vinkonu sinni um hálfri klukkustund áður en Tómas kom yfir. 

„því jeg er alveg við það myrða þennan hobbita,“ skrifaði Steinþór í skilaboðunum og átti þar við Tómas þegar hann talaði um hobbita. 

Spurður út í skilaboðin sagði Steinþór að þetta hafi meira vera sagt í gríni og reiði, heldur en alvöru. „Þetta væri ansi illa skipulagt morð ef ég hefði meint þetta,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert