Ingó sendir konu kröfubréf

Ingólfur Þórarinsson.
Ingólfur Þórarinsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tónlistarmaðurinn Ingólfur Þórarinsson, eða Ingó veðurguð, hefur sent konu kröfubréf eftir að hún ásakaði hann um nauðga konum og beita ofbeldi í ummælum á internetinu á vormánuðum 2022.

Heimildin segir fyrst frá.

Ingólfur hefur þegar lagt Sindra þór Sigríðarson Hilmarsson í Landsrétti í meiðyrðamáli sem hann höfðaði gegn Sindra fyrir ummæli sem hann lét falla á netinu. Snéri Landsréttur við dómi héraðsdóms í málinu. 

Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Ingólfs, telur eðli ummælanna nú ekki ólík þeim sem Sindri hafði uppi um Ingólf.

„Þetta eru gróf ummæli,“ segir Auður í samtali við mbl.is.

Ætlar ekki að sitja undir ummælum 

Að sögn hennar eru fleiri ummæli sem hafa fallið um Ingólf til skoðunar og einnig hvort fleiri meiðyrðamál verði höfðuð.

„Hann ætlar ekki að sitja undir því að vera kallaður nauðgari eða sakaður um ofbeldi,“ segir Auður.

Krafan er sú að konan leiðrétti ummæli sín og dragi þau til baka. Eins að hún greiði honum 250 þúsund krónur í miskabætur og 150 þúsund krónur í lögmannakostnað.Auður segir að ekki sé búið að taka saman hversu mörg ummælin séu til skoðunar sem látin hafa verið falla um Ingólf.

„Hvort sem þú ert sakaður um nauðgun, ofbeldi, barnaníð eða áreitni, þá eru það allt ærumeiðandi ásakanir. Þú ert að bera á einhvern refsiverða háttsemi," segir Auður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert