Vinnsla Íslandspóst á persónuupplýsingum starfsmanns í aðdraganda uppsagnar hans samrýmdist ekki upphaflegum tilgangi með notkun ökurita.
Þetta kemur fram í niðurstöðu Persónuverndar sem úrskurðaði í máli þar sem kvartað var yfir rafrænni vöktun Íslandspósts með notkun ökurita í bifreið sem starfsmaðurinn hafði afnot af í starfi sínu hjá Íslandspósti. Gögn sem voru fengin úr ökuritanum voru síðar notuð sem uppsagnarákvæði starfsmannsins úr starfi hjá félaginu.
Niðurstaða Persónuverndar var einnig á þann veg að starfsmaðurinn, sem kvartaði yfir málinu til stofnunarinnar í apríl í fyrra, hafði ekki fengið fræðslu um breyttan tilgang með notkun ökuritans áður en vinnslan átti sér stað. Því var notkun Íslandspósts á upplýsingum um starfsmanninn úr ökuritanum ekki talin hafa verið í samræmi við lög.
Póstmannafélag Íslands taldi Íslandspóst hafa farið út fyrir heimildir sínar með því að nota gögnin úr ökuritanum sem rökstuðning fyrir uppsögn hans úr starfi.
Íslandspóstur sagði aftur á móti að starfsmaðurinn hefði verið meðvitaður um notkun ökuritans í starfi sínu og um að starfsafköst hans kynnu að vera skoðuð með aðstoð ökuritans „sérstaklega í ljósi þess að kvartanir hefðu borist fyrirtækinu í aðdraganda uppsagnar vegna afkasta hans í starfi, þar sem honum hafi verið kunnugt um að ökuritinn gerði vaktstjórum útkeyrsludeildar kleift að fylgjast með staðsetningu og ferðum bílaflotans á skjá í stjórnstöð”.
Íslandspóstur taldi bæði nauðsynlegt og heimilt að leita í ökurita bifreiðarinnar til að afla gagna sem sýnt gætu fram á hvort starfsafköst mannsins hefðu verið í samræmi við ráðningarsamning hans hjá fyrirtækinu.
Í úrskurðarorðum Persónuverndar sagði aftur á móti að notkun Íslandspósts á persónuupplýsingum úr ökuritanum samrýmdist ekki ákvæðum reglna um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun, ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerðar um tilgang, gagnsæi og sanngirni við vinnslu persónuupplýsinga.