Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu grunar að kveikt hafi verið í rútunni sem stóð í ljósum logum handan við Elliðavatn í gærkvöldi.
Ekki er vitað hver eða hverjir voru að verki, að sögn Heimis Ríkharðssonar lögreglufulltrúa.
Rútan hafði verið á þessum stað í nokkurn tíma og búið var að vinna skemmdir á henni áður en eldurinn kviknaði í gærkvöldi. Lögreglan hafði reynt að ná í eiganda rútunnar vegna skemmdarverkanna án árangurs og ekki hefur heldur tekist að ná í hann vegna eldsvoðans.
Rútan er líkast til ónýt, að sögn Heimis, og er hún enn á sama stað.