Ólýsanlegt andrúmsloft á fundi um rýmingu

„Það verður aldrei hægt að lýsa andrúmsloftinu á þessum fundi,“ segir Otti Rafn Sigmarsson formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar um fundinn þegar upplýst var í stjórnstöð björgunarsveitarinnar að kvikugangur væri líklega að myndast undir Grindavík.

Á fundinum var tekin ákvörðun um að rýma bæinn. Þetta var föstudagskvöldið 10. nóvember og algerlega er óvíst hvenær íbúar geta á nýjan leik snúið til Grindavíkur til fastrar búsetu.

Otti Rafn er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag og fer yfir stöðuna þegar jarðskjálftahrinan náði hámarki og þeim veruleika sem blasir við Grindvíkingum í dag. Óvissa og áhyggjur eru stór þáttur í lífi bæjarbúa sem nú hafa dvalið utan heimilis í mánuð. Fjárhagsóvissa er annar þáttur sem er nagandi fyrir þessa tæplega fjögur þúsund einstaklinga sem búa í Grindavík.

Í tímabundnu leyfi

Otti Rafn er í tímabundnu leyfi frá formennsku Landsbjargar og er í dag óbreyttur björgunarsveitarmaður í sínum heimabæ, Grindavík.

Hann telur hverfandi líkur á að Grindvíkingar haldi jól heima. Enn sé eftir að laga fráveitumál, gera bæinn öruggan með tilliti til þeirra sprunga sem mynduðust í hildarleiknum. Þá segir hann að hættumat sem unnið er af Veðurstofunni í samráði við sérfræðinga þurfi að liggja fyrir áður en snúið verður aftur til búsetu.

Hér fylgir brot af þættinum þar sem Otti Rafn fer yfir kvöldið þar sem atburðirnir náðu hámarki sínu. Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert