Flugfélagið Play þarf ekki að greiða farþegum bætur eftir að flugvél félagsins varð fyrir eldingu.
Flugi frá Keflavík til Alicante var aflýst eftir að flugvél Play varð fyrir eldingu í desember í fyrra. Farþegum var útvegað flug sem fór degi síðar.
Fimm farþegar sem áttu far með vélinni leituðu réttar síns til Samgöngustofu vegna atviksins. Þeir fóru fram á skaðabætur og endurgreiðslur vegna reglugerðar um skaðabætur og aðstoð handa farþegum sem er neitað um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður, að því er segir í úrskurði Samgöngustofu.
Samgöngustofa mat sem svo að farþegarnir eigi ekki rétt á bótum vegna þess að flugfélagið gat sýnt fram á að fluginu var aflýst af völdum „óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir“.
Vélin var látin gangast undir tæknilega skoðun og reglubundið eftirlit eftir að hún varð fyrir eldingunni og þurfti því að fljúga degi síðar.