„Reynum að lágmarka skaðann“

Þotur Icelandair
Þotur Icelandair mbl.is/Árni Sæberg

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að boðuð verkföll flugumferðarstjóra á morgun og á fimmtudag hafi áhrif á öll morgunflugin, bæði frá Norður Ameríku og til Evrópu.

Félag íslenskra flugumferðarstjóra hefur boðað verkföll á morgun og á fimmtudag, sex klukkutíma í senn frá klukkan fjögur til klukkan tíu að morgni, í aðflugssvæðinu í kringum Keflavík og Reykjavík.

„Við erum að vinna í því að seinka öllu flugi til klukkan 10 og markmiðið er að reyna að þetta hafi sem minnst áhrif á farþega okkar,“ segir Guðni við mbl.is.

Verði af fyrirhugaðri vinnustöðvum stöðvast allt flug á áðurnefndum tíma að undanskildu sjúkraflugi og öllu flugi á vegum Landhelgisgæslunnar.

Heldur í vonina

Guðni segir að ef að verkföllunum verður þá fylgir því mikill kostnaður fyrir flugfélagið og óþægindi fyrir farþega.

„Við reynum að lágmarka skaðann og óþægindin fyrir farþega okkar eins mikið og við getum ef að þessum verkföllum verður. Maður heldur auðvitað í vonina um að samningar náist í þessari deilu,“ segir Guðni.

Hann segir að farþegar Icelandir verði látnir vita um leið og ákvörðun verði tekin um flugið með tölvupósti, sms og í appinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert