Það var í mörg horn að líta hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt dagbók embættisins. Tilkynnt var um umferðarslys á lögreglustöð 1 þar sem ökumaður ók á gangandi vegfaranda á litlum hraða þegar verið var að leggja bíl í stæði.
„Samkvæmt ökumanninum hafði gangandi vegfarandinn orð á því slysið væri ástæða þess að konur ættu ekki að vera í umferðinni, gekk í burtu og var farinn af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn,“ segir í dagbókinni.
Á lögreglustöð 2 bárust þrjár tilkynningar um hnupl í matvöruverslun. Í tveimur tilfellum fengu hnuplararnir að fara en í einu tilfelli komst ungur strákur á brott á hlaupum.
Þá var einnig tilkynnt um hnupl í matvöruverslun á lögreglustöð 4.
Í dagbók segir að vikomandi hafi farið á starfsmannasvæði og gripið vörur og farið út um neyðarútgang. Starfsmenn hefðu fylgt honum eftir og hann ráðist á þá í kjölfarið. Var hann handtekinn þegar lögregla kom á vettvang og reyndist vera í annarlegu ástandi vegna vímuefnaneyslu. Reyndist hann sömuleiðis vera með fíkniefni á sér. Samkvæmt dagbók lögreglunnar var hann vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.