Seinka öllum flugferðum Icelandair

Töluverðar seinkanir verða á flugi Icelandair í fyrramálið.
Töluverðar seinkanir verða á flugi Icelandair í fyrramálið. mbl.is/Hörður Sveinsson

Icelandair hefur seinkað öllu flugi sínu til og frá landinu í fyrramálið vegna fyrirhugaðrar vinnustöðvunar flugumferðarstjóra sem hefjast á klukkan fjögur í nótt.

Þetta staðfestir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, við mbl.is.

Alls munu 12 vélar frá Norður-Ameríku, sem hefðu átt að lenda um klukkan sex í fyrramálið, lenda upp úr tíu. Ferðum til Evrópu hefur verið seinkað og munu nú flest fara eftir klukkan tíu.

Allir komast á áfangastað þótt seint verði

Vegna þessara raskana hafa einhver flug verið sameinuð.

Flug sem átti að fara til London Gatwick fer til London Heathrow. Flug sem átti að fara til Parísar fer til Amsterdam, áætlaðar flugferðir til Zürich og München munu fara til Frankfurt og flug til Stokkhólms er nú áætlað til Kaupmannahafnar.

Guðni segir þá að tryggt verði að allir komist á sinn áfangastað sama dag, þótt sannarlega seinna en upphaflega var ætlað.

Icelandair gat ekki beðið lengur

„Ástæðan að Icelandair ákveður þetta er sú að farið er að styttast svo í flugin að nauðsynlegt er að grípa til aðgerða, óháð því hvort verður af fyrirhugaðri vinnustöðvun. Þetta mun svo hafa áhrif á ferðir vélanna sem koma svo aftur til baka frá Evrópu, sem hefðu alla jafnan átt að koma heim seinni partinn,“ segir Guðni.

„Icelandair er byrjað að færa farþega sem áttu að millilenda á Íslandi á leið sinni frá Bandaríkjunum til Evrópu í flug með öðrum flugfélögum. Með þeim hætti náum við inn plássi til sameiningar á vélum.“

Allir farþegar Icelandair í kvöld og á morgun eiga að hafa fengið tilkynningu um þessar breytingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert