Stekkjastaur lagður af stað til byggða

Sést hefur til Stekkjastaurs og talið að hann sé á …
Sést hefur til Stekkjastaurs og talið að hann sé á leið til byggða.

Eflaust eru flest börn búin að koma skónum fyrir uppi í glugga enda von á fyrsta jólasveininum í nótt.

Stekkjastaur Leppalúðason verður venju samkvæmt fyrstur jólasveinanna þrettán. Ekki náðist á hann við vinnslu fréttarinnar enda á hann eflaust fullt í fangi með undirbúning fyrir nóttina.

Þó hafa borist frásagnir af því að Stekkjastaur hafi sést á vappi og því talið að hann sé lagður af stað til byggða. 

Ekki heyrst af honum að sjúga ær 

Stekkur er gamalt heiti á sérstakri fjárrétt og þaðan dregur sveinninn nafn sitt.

Jóhannes úr Kötlum orti:

Stekkjastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék á bóndans fé.

Hann vildi sjúga ærnar,
-þá varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
-það gekk nú ekki vel.

Stekkjastaur kemur fyrstur jólasveina til byggða.
Stekkjastaur kemur fyrstur jólasveina til byggða.

Þannig hljómar jólasveinavísan um Stekkjastaur. Eins og sjá má í vísu Jóhannesar reyndi hann oft að sjúga ærnar í fjárhúsum bænda hér áður fyrr. Minna hefur farið fyrir frásögnum af því hin seinni ár og eftir því sem mbl.is kemst næst hafa engar tilkynningar um slíkt borist frá bændum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert