Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að fella niður ívilnanir til rafbíla á Alþingi í dag.
„Það er dregið úr stuðningi um 6,1 milljarð þegar fært er úr ívilnun yfir í stuðning í gegnum Orkusjóð en þeim sparnaði stungið undan. Hann er ekki nýttur í aðrar loftslagsaðgerðir. Nei, honum er stungið beinustu leið í vasann á ríkissjóði. Á sama tíma er fólk úti í Dúbaí að kalla eftir auknum stuðningi við loftslagsmál,” sagði Andrés Ingi.
Hann vakti einnig athygli á því að almenningur hefði keypt um sjö þúsund rafmagnsreiðhjól á Íslandi í fyrra og spurði Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í framhaldinu að því hvernig það þjónaði loftslagsmarkmiðum ríkisins að fella niður ívilnanir til reiðhjóla- og rafmagnsreiðhjólaeigenda.
Guðlaugur Þór sagði tíma kominn til að þeir sem töluðu fyrir loftslagsmálum áttuðu sig á því út á hvað þau ganga, þ.e. að taka úr jarðefnaeldsneyti og setja græna orku í staðinn. Allir í Dúbaí átti sig á því.
„En hér kemur háttvirtur þingmaður ásamt háttvirtum þingmönnum Pírata og Samfylkingar sem alla jafna tala um mikilvægi þess að fara í loftslagsaðgerðir og þegar koma stórar loftslagsaðgerðir þá segja þeir bara nei, nei, nei. Við segjum nei,” svaraði hann.
„Þannig að, virðulegi forseti, það er búið að gera margt hér í loftslagsmálum. En það er ekki hægt að þakka háttvirtum þingmanni og Pírötum fyrir það vegna þess að þeir reyndu að koma í veg fyrir það.“
„Síðan er talað um það, virðulegi forseti, að ef næst einhver sparnaður í ríkissjóði þá er verið að stinga undan,” bætti ráðherrann við og sagði ótrúlegt að Andrés Ingi áttaði sig ekki á því að ríkissjóður væri rekinn með halla.
„Hvað þýðir það? Við erum að senda reikning á börnin okkar. Það er ekki bannað að spara í ríkisrekstri, það er ekki bannað. Það lá alltaf fyrir að það sem við erum að gera, hvort sem það er í rafbílavæðingu eða rafhjól eða hvað það er, allt saman er þetta tímabundið alveg hreint og klárt,” sagði Guðlaugur Þór.