Nú geta þeir sem voru með skráð lögheimili í Grindavík þann 10. nóvember síðastliðinn skráð sig með tímabundið aðsetur þar sem þeir dvelja núna vegna neyðarástandsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þjóðskrá. Þar segir að skráning á tímabundnu aðsetri eða breytt lögheimili sé eitt af þeim skilyrðum sem þarf að uppfylla til þess að eiga rétt á sértækum húsnæðisstuðningi sem sótt er um hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
„Í ljósi aðstæðna í Grindavík hefur verið vikið frá þeirri almennu reglu að aðeins er hægt að skrá tímabundið aðsetur í húsnæði sem skráð er sem íbúðarhúsnæði og því er hægt að skrá tímabundið aðsetur í t.d. frístundabyggð eða öðru húsnæði þar sem búseta er almennt ekki heimil samkvæmt lögum,“ segir enn fremur í tilkynningu frá Þjóðskrá.
Sjá nánari upplýsingar og umsókn um tímabundið aðsetur hér.