Veðurstöðvar Veðurstofunnar á Hveravöllum og í Sandbúðum hafa dottið út síðustu daga. Eiríkur Örn Jóhannsson, veðurfræðingur á Veðurstofunni, segir stöðvarnar vera rafmagnslausar. „Þær eru bara að klára rafmagnið sitt,“ segir hann.
„Rafgeymarnir eru með sólarsellu og vindrellu. Sólarsellan gerir vitaskuld ekki neitt núna þegar sólin er svona lágt á lofti og stutt, og svo er enginn vindur á svæðinu.“
Rafmagnsleysið er afleiðing af blíðviðrinu á svæðinu að sögn Eiríks. „Það er búið að vera svo mikið blíðviðri að við fáum ekki hleðslu á rafgeymana og þess vegna detta veðurstöðvarnar okkar út.“
Hann segir þetta geta gerst á stöðvum á hálendi eða afskekktum stöðum. Stöðvarnar á láglendi séu oft með rafmagn eða stærri geyma. Eiríkur býst við því að stöðvarnar í Sandbúðum og á Hveravöllum detti aftur inn á miðvikudag, þegar búist er við að lægð komi yfir landið.
„Þegar hún [lægðin] kemur, kemur hún með vindstreng. Þá á ég von á að þær nái að hlaða sig aftur.“
Veðurfræðingar treysta sér ekki til að segja til um hvernig muni viðra um hátíðarnar. „Það er of snemmt að segja til um það,“ segir Eiríkur, spurður hvort sé líklegra að jólin verði hvít eða rauð.
„Það snjóar allavega ekki á meðan það er svona hægviðri og stilla, en hvort það verði snjór eða rigning er erfiðara að segja, eftir svona langan tíma.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.