Landsréttur staðfesti 5. desember úrskurð Héraðsdóms Reykjaness, sem var kveðinn upp 30. nóvember, um að ungur maður, sem hlaut dóm í tengslum við manndráp sem átti sér stað í Hafnarfirði í apríl, skuli sæta áframhaldandi vistun á viðeigandi stofnun til 8. mars á næsta ári.
Pólskur karlmaður á þrítugsaldri lést í árásinni af völdum stungusára.
Í byrjun nóvember var átján ára piltur dæmdur í 10 ára fangelsi fyrir manndrápið. Tveir aðrir piltar, sem báðir eru undir átján ára aldri, hlutu tveggja ára dóm fyrir sinn þátt í árásinni, en brot þeirra flokkaðist undir vísvitandi líkamsárás. Annar þeirra er til umfjöllunar í fyrrgreindum úrskurði Landsréttar.
Sautján ára gömul stúlka hlaut tólf mánaða skilorðsbundinn dóm til fimm ára fyrir brot á hjálparskyldu, en hún tók árásina upp.
Fram kemur í greinargerð lögreglu fyrir héraðsdóms, að af myndbandsupptökum sem liggja fyrir í málinu verði ekki annað séð en að maðurinn hafi haft ásetning til verknaðarins og að honum hafi ekki geta dulist að af háttsemi sinni myndu hljótast alvarlegar afleiðingar, þ.e. mannsbani.
Af myndbandinu má sjá í tvígang hvernig varnaraðili og meðákærðu umkringja manninn og veitast að honum með ofbeldi þannig að hann féll í jörðina og undir ítrekuðum spörkum varnaraðila og meðákærða í búk og höfuð mannsins. Sá sem hlaut 10 ára dóm stakk svo manninn alls sex hnífstungum, fjórum í bak, einni í handlegg og einni rétt fyrir neðan vinstra brjóst, sem náði inn að hjarta, sem dró manninn til dauða.
Með vísan til aldurs mannsins þá er það mat héraðssaksóknara að forsendur séu til þess að í stað gæsluvarðhalds verði honum gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun, sem fyrr segir.
Þá kemur fram, að ríkissaksóknari hafi gefið út áfrýjunarstefnu 24. nóvember og gerir þá kröfu fyrir Landsrétti að dómur yfir manninum verði þyngdur og hann sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga.
Ungi maðurinn hefur verið vistaður á viðeigandi stofnun frá 27. apríl og hafa úrskurðir héraðsdóms þar um verið staðfestir af Landsrétti.
Ungi maðurinn byggir á því að miðað við fyrirliggjandi dóm héraðsdóms verði afplánun hans á viðeigandi stofnun lokið nú í desember þar sem hann hafi þá afplánað 1/3 hluta fangelsisdómsins.
„Í tilefni þessa er á það bent af hálfu dómsins að fyrir liggur rökstuddur grunur um þátttöku varnaraðila í alvarlegri líkamsárás sem leiddi til dauða manns. Þótt brot hans hafi verið heimfærð undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga en ekki 211. gr., eins og ákæruvaldið krafðist og krefst við áfrýjun málsins, eru á þessu stigi ekki efni til þess að hrófla við því mati að almannahagsmunir standi til þess að varnaraðila verði vistaður á viðeigandi stofnun. Í ljósi alvarleika málsins, og þess að endanlegar lyktir þess liggja ekki fyrir, geta engu breytt í því sambandi vangaveltur um hvort varnaraðili kynni að verða leystur úr haldi fyrr á grundvelli umsóknar um nánar tilgreind úrræði samkvæmt lögum nr. 88/2008 stæði dómur héraðsdóms óhaggaður,“ segir í úskurði héraðsdóms sem Landsréttur staðfesti.