Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur hefur samþykkt að ráðast í umtalsverðar breytingar á Sundhöll Reykjavíkur við Barónstíg.
Í fundargerð ráðsins segir meðal annars: „Löngu tímabært er að gera endurbætur á gamla laugarkerinu og liggur nú fyrir endanleg tillaga um hönnun mannvirkisins sem mun skila endurbyggðu laugarkeri í innilaug, nýjum pottum á austursvölum og tveimur nýjum gufuböðum, þurrgufu og infrarauðri gufu á neðri hæð.
Sundhöll Reykjavíkur var upphaflega hönnuð af Guðjóni Samúelssyni árið 1929 og var hún tekin í notkun árið 1937. Árið 2017 var byggð viðbygging með útilaug, pottum og eimbaði.
Tekið er fram að með þessari nýju tillögu sé í öllum meginatriðum fylgt upprunalegri hönnun Guðjóns Samúelssonar í mannvirki sem hefur verið friðað í tæp 20 ár.
Fram kemur í breytingartillögunum sem hafa verið samþykktar að laugarker innilaugar sé orðið illa farið og þarfnast endurgerðar. Það verður brotið niður og endursteypt og einnig verða pottar á austursvölum steyptir að nýju.
Þá verður þvottahús á neðri hæð fært upp á efri hæð og komið verður fyrir nýjum gufuböðum, þurrgufu og infra rauðri gufu á neðri hæð í stað þvottaherbergis.