Sagði ósatt til að hafa áhrif á niðurstöðu sakamáls

Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir rangan framburð fyrir rétti í sakamáli. 

Héraðssaksóknari ákærði manninn í september fyrir rangan framburð með því að hafa 31. október 2019, er hann kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem vitni í sakamáli, ranglega borið að hann hafi í félagi við óþekktan aðila staðið að framleiðslu á samtals 8.592,36 gr. af amfetamíni í sumarhúsi í júní 2019. 

Maðurinn játaði brot sitt skýlaust fyrir rétti og var það metið manninum til málsbóta. Hann á sér nokkur sakaferli að því er segir í dómi héraðsdóms, sem féll 17. nóvember en var birtur í gær. 

Þá kemur fram að meðferð málsins hafi dregist hjá lögreglu og ákæruvaldi og þykir óhjákvæmilegt að líta til þess við ákvörðun refsingar í málinu, manninum til hagsbóta. 

Reyndi að hafa áhrif á niðurstöðu sakamáls

„Á hinn bóginn verður ekki framhjá því litið að ákærði hefur gengist við því að hafa sem vitni sagt ósatt við meðferð sakamáls fyrir dómi,“ segir í dómnum. 

Bent er á, að ákvæði 1. mgr. 142. gr. almennra hegningarlaga byggi á því grunnsjónarmiði að þeim manni, sem fyrir dóm komi, sé skylt að skýra satt og rétt frá málsatvikum. Ákvæðið sé sett til verndar hagsmunum almennings og refsivörslukerfisins af réttri og eðlilegri framvindu mála innan dómskerfisins.

„Leitaðist ákærði með röngum framburði sínum fyrir dómi við að hafa áhrif á niðurstöðu sakamáls. Virðist vilji ákærða til að segja ósatt í greint sinn, og með því að hafa áhrif á niðurstöðu málsins, sömuleiðis hafa verið styrkur og einbeittur,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert