Álagið á bráðamóttökuna er birtingarmynd stærri vanda Landspítalans sem er m.a. sá að erfiðlega gengur að útskrifa sjúklinga sem ættu að vera á öðru þjónustustigi, á borð við hjúkrunarheimili.
„Við erum að sinna fleira fólki heldur en að við getum gert í rauninni,“ segir Ólafur Guðbjörn Skúlason, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum.
Þannig eru um 93 sjúklingar á spítalanum sem ættu frekar heima á öðru þjónustustigi.
„Sem sagt eldriborgarar sem hafa eytt sínu lífi að byggja upp samfélagið, þurfa núna á mikilli hjúkrunarþjónustu að halda en ekki bráðaþjónustu á sjúkrahúsinu, en komast ekki í viðeigandi úrræði á vegum hins opinbera.“
Ólafur ræddi málefni Landspítalans ásamt Þóri Svavari Sigmundssyni, framkvæmdastjóra skurðlækningaþjónustu og skurðstofu- og gjörgæsluþjónustu, í Dagmálum.