Aðgerðum aðallega beint gegn Play og Icelandair

Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Birgir Jónsson, forstjóri Play. Morgunblaðið/Eggert

Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play, er sammála forstjóra Icelandair að augljóst sé að aðgerðum flugumferðarstjóra sé einkum beint gegn íslensku flugfélögunum.

„Það er athyglisvert að aðgerðirnar beinast ekkert gegn flugumferðarsvæðinu sjálfu. Það er ansi stórt svæði sem íslenskir flugumferðarstjórar stýra á ferðum yfir Atlantshafið.

Ef gripið væri til aðgerða á því myndi myndast þrýstingur frá öðrum samtökum eins og IATA, Eurocontrol og frá stórum erlendum flugfélögum.

Það er líka athyglisvert að aðgerðirnar virðast ekki beinast gegn þeim erlendu flugfélögum sem fljúga til Íslands því þau eru alla jafnan að fara aftur héðan upp úr tíu og ellefu á morgnana. Aðgerðunum er gagngert beint að íslensku flugfélögunum tveimur til þess að skapa þrýsting, umtal og óþægindi fyrir íslenska flugfarþega og gesti til landsins.“

„Það er ekki gaman að vera til núna“

Birgir segir Play rétt vera að vinna sig út úr því áfalli sem jarðhræringarnar við Grindavík ollu.

„Það var mjög þungt högg fyrir okkur og ferðaþjónustu á Íslandi. Ferðamálaráðherra var mjög öflugur í því að koma með aðgerðir til að vinna út úr því og svo gerist þetta bara nokkrum dögum seinna. Það er ekki gaman að vera til núna.“

Lagasetning ekki lausnin

Birgir segir að fólk eigi að flýta sér hægt að grípa til lagasetningar til að leysa vinnudeilur.

„Ég ber virðingu fyrir verkfallsréttinum og kjarabaráttu fólks og ég tel því að það ætti að fara rólega í að grípa til slíkra ráða. En hins vegar verður að horfa til þess að deilan er ólíklega að fara að leysast eins og málin horfa núna og gríðarlegir hagsmunir eru undir. Eitthvað þarf að koma til því að viðsemjendunum liggur ekkert á.

Hjá Isavia fá allir launin sín greidd á réttum tíma og enginn kostnaður hlýst þar af þessum aðgerðum.“ Þar vísar Birgir líka til þess að Isavia fær greidd öll gjöld af vélum sem koma eða fara frá landi þótt seint sé.

Orðsporið þegar skaðað

Birgir telur að Play og í raun Ísland sem millilendingarstaður fyrir ferðir yfir Atlantshafið hafi þegar orðið fyrir orðsporsskaða. Í næstu viku eru líka boðaðar aðgerðir og þá verður jólaumferðin komin á fullt. Verið sé að skemma jólahald þúsunda farþega.

Farþegar Play hafi þegar orðið fyrir fjárhagslegum skaða af aðgerðum flugumferðarstjóra, þar sem þeir þurfi sjálfir að greiða fyrir tengiflug, bílaleigubíla og hótel. Það sé kostnaður sem enginn sé að fara að bæta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert