Varnarsigur var unninn á loftslagsráðstefnunni COP28 með því að minnast í fyrsta sinn á jarðefnaeldsneyti í samkomulaginu sem náðist í borginni Dúbaí í morgun.
Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
„Fólk var orðið mjög svartsýnt um að þetta væri algjörlega farið úr textanum en þegar niðurstaðan kemur, að tala þó að minnsta kosti um jarðefnaeldsneyti og einhvers konar umbreytingu frá því, þá er það að því leytinu til ákveðinn varnarsigur,” greinir hún frá.
Katrín segir að þessi skilaboð frá fundinum hafi því verið jákvæð þó að hún hefði sjálf viljað ganga lengra. Hún bendir samt á að margt annað gott hafi náð fram að ganga, m.a. áherslan á að halda áfram að takmarka hlýnun jarðar við 1,5 gráðu og aukin áhersla á að byggja á skoðunum vísindamanna.
Stærsta fréttin frá ráðstefnunni segir hún síðan vera að ákveðið hafi verið að svokölluð hnattræn stöðutaka verði á fimm ára fresti. Með þessu sé komið verkfæri til að fylgja eftir markmiðum Parísarsamkomulagsins.