Birta Björnsdóttir mun hætta sem varafréttastjóri Ríkisútvarpsins um áramótin. Ragnhildur Thorlacius mun taka við af henni.
Birta var annar tveggja varafréttastjóra ásamt Valgeiri Erni Ragnarssyni. Mun Birta halda áfram hjá RÚV og verður yfir erlendu deildinni en því starfi sinnti hún áður en hún tók við varafréttastjórastöðunni.
Heimildin greinir frá og hefur eftir Birtu að hún hafi mestan áhuga á erlendum fréttum. Með þessu móti geti hún fengið mestan tíma til að sinna þeim.
Birta hefur gengt stöðu varafréttastjóra í tæplega tvö ár, en tók hún við starfinu af Heiðari Erni Sigurfinnssyni sem þá var ráðinn fréttastjóri RÚV.
Heiðar Örn tók tímabundið við sem fréttastjóri eftir að Rakel Þorbergsdóttir lét af störfum sem fréttastjóri.