„Eðlilega er fólk ekki sátt“

Arnar Hjálmsson, formaður félags íslenskra flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson, formaður félags íslenskra flugumferðarstjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, hafnar því flugumferðarstjórar krefjist 25% launahækkunar í kjaraviðræðum sínum við Isavia en Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að það séu kröfur þeirra.

Fyrsta lota verkfalls flugumferðarstjóra var í gær og að óbreyttu skellur á annað verkfall klukkan 4 í nótt og stendur til klukkan 10 í fyrramálið. Þeir hafa síðan boðað tvær vinnustöðvanir í næstu viku, á mánudaginn og á miðvikudaginn. Næsti fundur í kjaradeilunni hefur verið boðaður í húsakynnum Ríkissáttasemjara klukkan 14 á morgun.

Ræddu saman í hádeginu

Spurður hvers vegna hafi ekki verið boðað til fundar í dag segir Arnar:

„Þú verður að spyrja sáttasemjara að því. Næsti fundur er bara boðaður á morgun,“ segir Arnar við mbl.is. Hann segir að öllu óbreyttu hefjist verkfall að nýju klukkan 4 í nótt.

„Samninganefnd okkar hittist í hádeginu í dag og fór yfir stöðuna en ég veit ekki um deiluaðilana. Ég veit ekkert hvort það verði einhver samtöl okkar á milli í dag utan samningaborðsins. Það verður bara að koma í ljós,“ segir Arnar.

Hann segir töluvert beri á milli í deilunni en spurður út í frétt Morgunblaðsins að flugumferðarstjórar krefjist 25% launahækkunar segir Arnar:

„Ég hafna þessu alfarið. Við höfum ekki farið fram á 25% launahækkun. Væntanlega koma þessar upplýsingar frá SA og ég geri fastlega ráð fyrir því,“ segir Arnar.

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands námu heildarlaun flugumferðarstjóra 1.584 þúsund krónum að meðaltali á mánuði í fyrra, þar af voru grunnlaun 915 þúsund, en heildarlaunin námu 1.584 þúsundum á mánuði, þ.e. laun fyrir umsamin vinnutíma í dagvinnu og vaktavinnu og yfirvinnu, að viðbættum óreglulegum greiðslum.

Arnar segist ekki ræða um meðallaun og þau séu ekki grunnlaun. Hann segir að meðallaun standi saman af grunnlaunum, vaktaálagi, óhóflegri yfirvinnu og óreglulegum öðrum greiðslum sem eru af ýmsum toga. Hann segir að grunnlaunin ein og sér hjá flugumferðarstjórum sé rétt undir 700 þúsund krónur.

„Það er skortur á flugumferðarstjórum á Íslandi sem verður til þess að yfirvinnan er óhófleg,“ segir Arnar en 152 flugumferðarstjórar starfa á landinu.

„Þessar aðgerðir sem voru i fyrrinótt og fyrirhuguðu næstu nótt ná til 28 flugumferðarstjóra sem hafa réttindi í þessu svokallaða aðflugssvæði. Það eru ekki 28 á vakt í einu og vinnustöðvunin nær til þeirra sem eru að vinna í þessu svæði á þessu tiltekna tímabili. Það eru um það bil sex manns sem leggja niður störf.“

Teljum okkur ekki hafa gert neitt rangt

Fram kemur í frétt Morgunblaðsins að samkvæmt heimildum blaðsins beri SA brigður á lögmæti verkfallsboðun flugumferðarstjóra í næstu viku, bæði hvað varðar form og tímasetningar.

„Við teljum okkur ekki hafa gert neitt rangt eða þar til annað kemur í ljós. Ef SA vill láta reyna á þetta þá fer það bara sína leið í kerfinu,“ segir Arnar.

Um umræðuna í samfélaginu þar sem margir hafa látið óánægu sína í ljós með aðgerðir flugumferðarstjóra segir Arnar:

„Ég get alveg skilið óánægju og pirrings fólks. Þetta raskar ferðalögum og ferðatillögun hjá mörgum og hefur áhrif á flugfélögin. Eðlilega er fólk ekki sátt en við erum með þessi réttindi og erum í þeirri vinnu að semja um kaup og kjör. Þetta er síðasta vopnið sem stéttarfélög geta beitt.“

Forsvarsmenn Isavia vildu ekki tjá sig um málið við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum fyrirtæksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka