Eðlilegt að aðgerðirnar bitni mest á íslenskum flugfélögum

Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra
Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF), segir við mbl.is að einhverjar óformlegar þreifingar hafi átt sér stað í dag í vinnudeilu þeirra við Isavia.

Hann segir enga pattstöðu í málinu, verið sé að reyna að þoka málum áfram.

Eðlilegt að bitni mest á íslenskum flugfélögum

Arnar telur eðlilegt að íslensku flugfélögin tvö finni mest fyrir aðgerðunum enda séu þau umsvifamest hér á landi.

Varðandi gagnrýni Birgis Jónssonar, forstjóra Play, sem fram kom á mbl.is, segir Arnar að í gildandi samningum félagsins sé ákvæði um að vinnudeilur þeirra bitni ekki á þriðja aðila.

Þá er verið að vísa til yfirflugs yfir flugstjórnarsvæði Íslands. Félagið hafi ekki fyrirgert verkfallsrétti sínum þar, en ef gripið væri til slíkra aðgerða þá væri það brot á gildandi samningum. Það verði því ekki gert.

Samningsaðilar sjaldnast einu fórnarlömb vinnudeilna

Arnar segir að í vinnudeilum verði ýmsir aðrir fyrir afleiðingum þeirra heldur en einungis þeir sem sitja við samningsborðið. Hann nefnir sem dæmi að ef leikskólakennarar fari í verkfall, þá verði ekki einungis kennarar og börn fyrir því, heldur líka foreldrar sem þurfa að vera frá vinnu til að gæta barna sinna.

Arnar segist halda bjartsýnu hugarfari til viðræðna en ljóst sé að aðgerðir morgundagsins munu fram fara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert