Vegurinn við Fitjar í Reykjanesbæ er enn lokaður eftir að vöruflutningabíll valt þar fyrr í dag á meðan unnið er að því að tæma bílinn, sem er fullur af ýmsum efnum.
Þetta staðfestir Gunnar Jón Ólafsson, verkefnastjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja í samtali við mbl.is.
„Við erum að passa að það leki ekkert frá honum, það er byrjað að leka aðeins úr honum,“ segir Gunnar, en segir að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvaða efni séu í bílnum.
Hann kveðst telja að vegurinn verði lokaður í nokkra klukkutíma í viðbót þar til aðgerðum sé lokið.
Segir Gunnar bílinn hafa oltið í hringtorgi en að hann telji að bílstjórinn hafa sloppið með minniháttar meiðsli, en sé nú til skoðunar á sjúkrahúsi.
Vegfarandi sem átti leið hjá slysinu og aðstoðaði við að koma ökumanni vöruflutningabílsins út, sagði að blætt hefði úr höfði hans er honum var hjálpað út úr bílnum.