Fara mjög illa í okkur

Ljóst er að flugfélögin Icelandair og Play verða fyrir miklu …
Ljóst er að flugfélögin Icelandair og Play verða fyrir miklu fjárhagslegu tjóni vegna verkfalla flugumferðarstjóra. Samsett mynd

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að verkföll flugumferðarstjóra geti haft gríðarleg áhrif á afar stuttum tíma.

Sex klukkutíma vinnustöðvun var hjá flugumferðarstjórum í gær þar sem flug þúsunda ferðamanna raskaðist og annað verkfall skellur á klukkan 4 í nótt og stendur til klukkan 10 í fyrramálið. Flugumferðarstjórar hafa svo boðað vinnustöðvanir dagana 18. og 20. desember.

„Þessar aðgerðir fara mjög illa í okkur. Öll truflun á flugsamgöngum hefur verulega raskandi áhrif á greinina og sérstaklega á flugfélögin. Röskunin gengur síðan niður keðjuna að einhverju leyti. Ef fólk tapar degi eða einhverju slíku þá hefur það veruleg fjárhagsleg áhrif, ekki bara á greinina heldur á samfélagið eins og hefur komið fram í nýlegri skýrslu um skattspor greinarinnar. Þetta eru rúmlega 400 milljónir á dag sem greinin er að skila inn til samfélagsins,“ segir Jóhannes Þór við mbl.is.

Jóhannes segir að þessi verkföll séu sérstaklega slæm í kjölfar þess sem átt hefur sér stað á Reykjanesinu undanfarnar vikur sem hefur haft veruleg áhrif á bókanir.

„Ég veit dæmi um afþreyingarfyrirtæki sem hafa misst 80-85% miðað við árið í fyrra í nóvember og desember og fyrirtæki sem áttu von á því að vera með allt á fullu á Suðurlandi um hátíðarnar en eru nú að láta starfsfólk sitt mála eða eitthvað slíkt eða þurfa segja því upp. Svona flugröskun er því gríðarlega slæmt beint ofan í þetta,“ segir Jóhannes Þór.

Gríðarlegur kostnaður fyrir flugfélögin

Spurður hvort farið sé að bera á afbókunum vegna aðgerða flugumferðarstjóra segir Jóhannes: 

„Ég er ekki með tölur um það en við vitum að þegar svona gerist þá verður alltaf eitthvað um afbókanir og eftir því sem þetta verður meira og kannski viðvarandi ástand í næstu viku ef ekki nást samningar þá stefnir í verulegt vandamál,“ segir Jóhannes.

Hann segir að verkföllin skapi gríðarlegan kostnað fyrir Icelandair og Play og hjá þeim verði tjónið langmest enda finna viðskiptavinir þeirra fyrir þjónustuskerðingu og þau verði ekki bara fyrir fjárhagslegu tjóni heldur líka tjóni á orðspori.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Finnst ykkur að stjórnvöld eigi að grípa inn í deiluna á þessum tímapunkti?

„Ég held að það sé ekki tímabært að ræða það enn þá en það er algjörlega ljóst að verkföll á þessum stað í samfélaginu geta haft gríðarleg áhrif á afar stuttum tíma.“

Hann segist halda í vonina um að semjist á meðan samtal deiluaðila er enn í gangi. Fundur hefur verið boðaður í kjaradeilunni hjá sáttasemjara á morgun sem þýðir að verkfall skellur á klukkan 4 í nótt til klukkan 10 í fyrramálið.

„Það er algjörlega ljóst að takturinn í kjarasamningaviðræðum almennt í samfélaginu hlýtur að verða að vera innan þeirra marka sem Seðlabankinn hefur bent á. Þar erum við að tala um 2,5-4% launahækkun. Um þetta hafa allir verið sammála um í aðdraganda kjarasamninganna í haust. Það gera sér allir grein fyrir mikilvægi þess fyrir samfélagið að ná niður verðbólgu og gera skynsamlega samninga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert