Fimm háttsemisbrot til skoðunar á árinu

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm mál hafa komið til skoðunar á síðastliðnu ári hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem varða ósæmilega háttsemi starfsfólks embættisins. Er þar átt við mál á borð við einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni í kjölfar umfjöllunar í gær um að lögreglukona hefði þurft að þola áreitni og ofbeldifsulla hegðun af hendi eins æðsta yfirmanns embættisins.

Tekið er fram að mál sem þessi hafi vissulega komið upp á vinnustaðnum, en að þau séu ekki umborin undir neinum kringumstæðum.

„Á síðastliðnu ári hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haft til meðferðar fimm mál er varðar fyrrgreinda háttsemi. Í öllum tilvikum var brugðist við í samræmi við reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum,“ segir í tilkynningunni. Þá hafi verið horft til laga um vinnuumhverfi og vinnuvernd og ákvæði starfsmannalaga.

Segjast fylgja sérfræðimati eftir með stuðningi stjórnenda

Í einhverjum tilfellum var talin ástæða til að kalla til utanaðkomandi sérfræðinga til að leggja mat á málin. Rímar það við umfjöllunina í gær þar sem fram kom að sálfræðistofa hafi verið fengin til að skoða mál yfirmannsins og lögreglukonunnar.

Í tilkynningu lögreglunnar í dag segir að niðurstöður úr slíkum mötum séu alltaf kynnt málsaðilum og fylgt eftir með stuðningi stjórnenda í formi samtala og aðgengi að utanaðkomandi sérfræðistuðningi ef það á við. Sá punktur rímar þó ekki við umfjöllunina í Kastljósi í gær þar sem fram kom að konan hefði ekki heyrt frá neinum í yfirstjórn lögreglunnar eftir að skýrslan var klár. Hafi hún svo þurft að flytja sig til milli starfsstöðva, en yfirmaðurinn kom aftur til starfa á skrifstofu lögreglustjóra.

Fimm mál hafa komið upp innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu síðastliðið …
Fimm mál hafa komið upp innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu síðastliðið ár þar sem háttsemi starfsmanna embættisins hefur verið til skoðunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áminning meðal þyngstu agaviðurlaga

Tekið er fram í tilkynningunni að eftir að mannauðsstjóri hafi haft forgöngu um vinnslu starfsmannamála sé það lögreglustjóri sem taki lokaákvörðun þegar skoðun er að fullu lokið. Niðurstaða slíkra mála getur leitt til beitingar agaviðurlaga á grundvelli starfsmannalaga, tilflutnings í starfi eða annarra úrræða.

„Vert er að taka fram að í starfsmannalögum telst áminning vera meðal þyngstu agaviðurlaga sem hægt er að beita opinberan starfsmann. Tvær áminningar fyrir samskonar brot leiða til uppsagnar,“ segir einnig í tilkynningunni.

Embættið ítrekar að ekki sé hægt að tjá sig um málefni einstakra starfsmanna, en að fyrrgreind háttsemi sé ávallt litin alvarlegum augum.

Ætla að auka fræðslu

Að lokum er bent á að fara eigi í aukna fræðslu innan embættisins eftir skoðun. „Undanfarið hefur átt sér stað endurskoðun á stefnu og verklagi innan embættisins og meðal niðurstaðna úr þeirri vinnu er að starfsfólk fái aukna fræðslu um mörk í samskiptum og hvaða afleiðingar það getur haft ef farið er yfir þau. Gildandi stefnur og ferlar sem fylgt er í slíkum málum eru einnig ávallt aðgengilegir og kynntir starfsfólki.“

mbl.is óskaði í dag eftir viðtali við Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, vegna málsins, en vísað var í tilkynningu embættisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert