Gert að greiða um 200 milljónir vegna skattabrota

Karlmaður á fimmtugsaldri, Sigurður Kristinn Árnason, hefur verið dæmdur í 14 mánaða fangelsi, þar af níu mánuði skilorðsbundið, og til að greiða tæplega 200 milljónir í sekt í tengslum við skattabrot í rekstri þriggja einkahlutafélaga sem hann var í forsvari fyrir og vegna eigin framtals- og skattaskila.

Sigurður var í málinu ákærður ásamt öðrum manni í tengslum við rekstur félaganna þriggja, en dómari vísaði því sem varðaði hinn manninn frá dómi.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að brot Sigurðar séu mörg og stórfelld. Litið er til þess að brot hans eru alvarleg og beinast að verulegum fjárhæðum. Er hann jafnframt í dómnum sagður eiga sér afar takmarkaðar málsbætur.

Faraldurinn ekki afsökun, en kennitöluflakk ekki sannað

Um er að ræða félögin BC1 ehf., ZF1 ehf. og BC innviði ehf., en brot Sigurðar vegna þeirra ná til áranna 2020 og 2021. Þá ná eigin framtals- og skattaskilsbrot hans til tekjuáranna 2017-2019. Fram kemur í dóminum að félögin hafi öll lent í rekstrarvanda og vanskilum sem hafi leitt til þess að tvö þeirra enduðu gjaldþrota, en eitt hefur náð að rétta úr kútnum og er enn í rekstri.

Vísaði Sigurður í vörn sinni meðal annars til þess að félög hans hafi ekki fengið neinn stuðning í gegnum faraldurinn, en dómurinn segir erfitt umhverfi vegna faraldursins ekki leysa menn undan refsiábyrgð þegar komi meðal annars að því að skila inn réttum virðisaukaskattsskýrslum og greiða opinber gjöld.

Var Sigurður í málinu sakaður um að stunda svokallað kennitöluflakk, en í dóminum er sérstaklega tekið fram að ákæruvaldið hafi ekki gert neinn reka að því að færa sönnur á að það hafi verið stundað.

Hann er hins vegar fundinn sekur um flesta liði ákærunnar, en þar er um að ræða tæplega 76 milljóna brot vegna virðisaukaskatts sem ekki var greiddur og um 27 milljóna vegna staðgreiðslu sem ekki var greidd í rekstri félaganna þriggja.

Beita þrefaldri sekt

Hann er svo einnig sakfelldur fyrir að hafa rangfært skattframtöl sín á árunum 2017-2019 og þannig komist hjá því að greiða opinber gjöld af 69,9 milljóna tekjum, eða samtals 27,8 milljónir í skatt. Við ákvörðun refsingar er honum gert að greiða þrefalda þá upphæð í sekt, eða 83,4 milljónir.

Er Sigurði gert að greiða 196,7 milljónir samtals í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna, ella sæta fangelsi í tólf mánuði.

Má áfram stofna og stjórna félögum

Ákæruvaldið hafði farið fram á að Sigurði yrði bannað með dómi að stofna félag með takmarkaðri ábyrgð, sitja í stjórn, starfa sem framkvæmdastjóri eða koma með öðrum hætti að stjórnun eða fara með meirihluta atkvæðisréttar í slíku félagi í þrjú ár. Dómarinn hafnaði þeirri kröfu hins vegar.

Brot yngri mannsins ekki nógu umfangsmikil

Varðandi yngri manninn sem einnig hafði verið ákærður, þá hafði hann verið ákærður fyrir brot sem samtals voru upp á 30,5 milljónir vegna vangreiddar staðgreiðslu launamanna og virðisaukaskattsgreiðslur í tengslum við BC innviði ehf. Dómarinn vísar til fyrirmæla ríkissaksóknara í skattabrotum um að miða eigi við 50 milljónir við meðferða skattalagabrota þegar ákveðið er að senda mál til embættis héraðssaksóknara sem gaf út ákæru í þessu máli.

Saksóknari í málinu vildi hins vegar að horft yrði til heildarfjárhæðar málsins, en dómarinn hafnaði slíkum röksemdum með vísun til þess að hluti brotanna væri yngri manninum óviðkomandi. Þá hefði málum tengdum honum sem vörðuðu ZF1 verktakafélagið verið lokið með sektargreiðslu.

Vísar dómarinn til þess að lögreglan geti ákveðið að endursenda til skattyfirvalda til meðferðar og ákvörðunar ef meint brot eru undir fyrrnefndum viðmiðum og segir í dóminum að héraðssaksóknara hafi borið að senda málið til skattrannsóknarstjóra til þóknanlegrar meðferðar. Er hlut yngri mannsins því vísað frá dómi.

Auk refsingar og sektargreiðslu var Sigurði gert að greiða 3 milljónir í málsvarnarlaun verjanda síns, en málsvarnarlaun þess yngri, upp á 2,5 milljónir greiðast úr ríkissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert