Gul viðvörun vegna veðurs tekur gildi í nótt víða um land með töluverðum vindstyrk, dimmum éljum og erfiðum akstursskilyrðum.
Á Suðurlandi tekur hún gildi klukkan 2 í nótt. Búist er við suðvestan 10 til 18 metrum á sekúndu en staðbundnum 15 til 23 metrum með dimmum éljum og lélegu skyggni á milli. Þá má búast við erfiðum akstursskilyrðum.
Á sama tíma tekur gul viðvörun gildi á Suðausturlandi. Þar má sömuleiðis búast við suðvestan 10-18 metrum á sekúndu og staðbundnum 15 til 23 metrum með dimmum éljum og lélegu skyggni á milli, einkum vestan til. Þar má einnig búast við erfiðum akstursskilyrðum.
Einni klukkustund síðar tekur gul viðvörun gildi á Faxaflóa og Breiðafirði með sama hætti og á Suðurlandi, suðvestan 10 til 18 metrum á sekúndu en staðbundnum 15-23 metrum með dimmum éljum og lélegu skyggni á milli og erfiðum akstursskilyrðum.
Klukkan fimm í nótt er búist við sama veðri á Ströndum og Norðurlandi vestra og klukkan sex á Vestfjörðum.
Samkvæmt litakóðatöflu Veðurstofu Íslands yfir veðurviðvaranir er veðrið sem búist er við talið mjög líklegt og að það hafi nokkur áhrif.