Hætt við að blint verði á fjallvegum

Marcel de Vries, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að …
Marcel de Vries, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að búast megi við lélegu skyggni og að hætt sé við því að blint verði á fjallvegum á meðan viðvörunin gildi. Ljósmynd/Landsbjörg

Gul viðvör­un vegna veðurs tek­ur gildi í nótt víða um land með tölu­verðum vind­styrk, dimm­um élj­um og erfiðum akst­urs­skil­yrðum og gildir í rúman sólarhring.

Hefur bætt í vind nú þegar

Það hefur bætt í vindinn nú þegar og búist er við vaxandi sunnan- og suðaustanátt síðdegis í dag, að sögn Marcels de Vries, vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Viðvörunin er að fjalla um dimm él á fjallvegum sérstaklega og á láglendi fyrir norðan síðar. Það verður suðvestanátt og almennt á milli 13 og 18 metrar á sekúndu en í skúrum og éljum getur vindhraði rokið alveg upp í 23 metra á sekúndu. Vegna þess eru gefnar út viðvaranir.“

Marcel segir að nú sé talsverð rigning á sunnan- og vestanverðu landinu og hitastig allt að 3 til 8 stigum en á nokkrum stöðum á Norðurlandi nái hitinn allt að 10 stigum.

Hvessir í nótt

„Í kvöld snýst í suðvestanátt. Fyrst dregur aðeins úr vindi en svo hvessir í nótt. Það kólnar og fer að élja þó nokkuð á fjallvegum og það verða slydduél á láglendi.“

Marcel segir að búast megi við lélegu skyggni og að hætt sé við því að blint verði á fjallvegum á meðan viðvörunin gildi eða til klukkan 6 á föstudagsmorgun.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert