Iðnskólar landsins eru komnir að þolmörkum. Þörf er á að bæta við húsnæði og aukið rekstrarfé skortir til að geta tekið við fleiri nemendum. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar greiningar Samtaka iðnaðarins (SI) sem birt er í dag.
Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu hefur verið skortur á iðnmenntuðum á vinnumarkaði á síðustu árum en á sama tíma hefur 600-1.000 nemendum verið vísað frá iðnnámi samanlagt á haust- og vorönn.
Samkvæmt greiningu SI er húsnæði iðnskóla landsins fullnýtt. „Meta skólarnir sem svara könnuninni að þeir geti tekið við samanlagt 4.876 nemendum innan núverandi húsnæðis. Heildarfjöldi í iðnnámi hjá þessum skólum er nú 4.653 og er nýtingarhlutfallið því ríflega 95%,“ segir í greiningunni þar sem vísað er í könnun SI meðal skólastjórnenda.
Þar kemur jafnframt fram að áætlaður kostnaður við iðnnám við þá skóla sem svara könnuninni sé tæplega 9,5 milljarðar króna á þessu skólaári. Samkvæmt könnuninni taka flestallir iðnskólar við fleiri nemendum en sem nemur fjármagninu sem til þeirra er úthlutað í fjárlögum. Margir iðnskólar skila því halla til að mæta þeim mikla fjölda sem sækir um nám í skólunum.
Rétt um einn milljarð króna vantar í skólana til að ná endum saman og fullnýta skólahúsnæðið. Þar fyrir utan vantar annan milljarð inn í skólana til að bæta tækjakost í núverandi húsnæði svo unnt sé að bjóða upp á iðnnám sem stenst nútímakröfur. Auk þess vantar fjármagn til að fjölga kennurum, segir í greiningunni.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.