Kennaraforystan ber mikla ábyrgð

Kjarasamningar kennara hafa haft neikvæð áhrif á þróun menntakerfisins. Enginn hvati er til þess að skara fram úr og ungt fólk og öflugt hefur lítinn hvata til þess að mennta sig á sviðinu. Þetta segir Björn Brynjúlfur Björnsson hagfræðingur en hann er gestur Spursmála ásamt Áslaugu Huldu Jónsdóttur aðstoðarmanni ráðherra og fyrrum framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar.

„Forysta kennara og stjórnvöld hafa samið þannig að kennari sem kemur inn nýr er með mjög lág og léleg laun en ef þú ert með háan lífaldur og háan starfsaldur þá hækka launin miklu meira. Þannig að þetta snýst aldrei um frammistöðu eða hvernig þú stendur þig í starfi. Þetta snýst bara alltaf um að hafa verið lengi í starfinu,“ segir Björn Brynjúlfur þegar talið berst að ömurlegri frammistöðu íslenskra nemenda á hinu samræmda Pisa-prófi sem sýnir að aðeins eitt Evrópuríki skorar lægra en Ísland, en það er Grikkland. Prófið er lagt fyrir nemendur í 8. bekk grunnskóla og nær til lestrar, stærðfræði og náttúruvísinda.

Áslaug Hulda Jónsdóttir og Björn Brynjúlfur Björnsson voru gestir Stefáns …
Áslaug Hulda Jónsdóttir og Björn Brynjúlfur Björnsson voru gestir Stefáns Einars í öðrum þætti Spursmála. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björn Brynjúlfur hefur verið mjög gagnrýninn á þá ákvörðun stjórnvalda að hætta svokölluðum samræmdum prófum í grunnskólum. Eftir það er lítinn sem engan samanburð að hafa milli skóla hér á landi og hið sama á við þegar kemur að niðurstöðu Pisa. Skólastjórnendur, nemendur og foreldrar hafa ekki aðgang að frammistöðu einstaka skóla. Aðeins heildarniðurstaðan er birt, ólíkt því sem tíðkast í þeim löndum þar sem frammistaða nemenda er best.

Hver vill þetta?

Björn Brynjúlfur segir sömuleiðis að öflugt fólk hafi lítinn hvata til þess að leggja fyrir sig kennaramenntun og kennarastarfið.

„Á sama tíma gerði forysta kennaranna kröfu um að lengja námið til að verða kennari. Þannig að núna þarftu fjögurra ára háskólanám og eins árs starfsnáms til þess að fá mjög lág laun. Hver vill þetta? Þú býrð til mjög vont kerfi ef þú býrð til kerfi sem verðlaunar bara þá sem hafa verið lengi en ekki þá sem vilja koma inn.“

Þú verðlaunar þá bæði með hærri launum og minna vinnuframlagi?

„Ja, alla vega minni kröfum. Hverjar eru kröfurnar í þessu kerfi? Það eru engar kröfur til nemenda og engar kröfur til kennara. Og auðvitað er þetta niðurstaðan.“

Áslaug Hulda hefur langa reynslu af störfum innan menntakerfisins. Bæði innan Hjallastefnunnar og sem forystumaður á sveitarstjórnarstiginu, þar sem málefni grunnskólans hvíla.

Áslaug Hulda Jónsdóttir var lengi framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar.
Áslaug Hulda Jónsdóttir var lengi framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar. mbl.is/Brynjólfur Löve

„Það hefur líka verið rosaleg tregða í kerfinu hjá okkur, menntakerfinu í heild og á öllum skólastigum til einhverrar framþróunar og breytinga. Við erum rosalega föst í einhverjum kjarasamningum og bæði þegar ég var framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar og þegar ég var í bæjarstjórninni, þegar voru gerðar einhverjar tilraunir gerðar til að breyta, gera öðruvísi samninga og þó kennararnir væru með í liði þá var alltaf sagt, stopp, stopp. Þannig að það er hluti af vandamálinu að við erum svo einsleit og það er hluti af vandamálinu þegar þetta er orðið svona einsleitt að allir eru settir í sama box. Það má enginn skara fram úr, það má enginn verða of seinn, þannig að það eru allir í einhverri meðalmennsku og það er slæmt, það er slæmt fyrir alla,“ segir Áslaug Hulda.

Þáttinn í heild má sjá og heyra hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert