Krafa að samningar náist

Sigurður Ingi Jóhansson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhansson innviðaráðherra. mbl.is/Óttar

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að það sé krafa frá stjórnvöldum og öllum Íslendingum að samið verði í deilu flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Isavia.

„Þetta er alvarleg staða og ég vona að aðilarnir við samningaborðið geri sér grein fyrir ábyrgð sinni. Við erum búin að vera að glíma við náttúruvá í nokkrar vikur og takast á við að koma heilu sveitarfélagi inn í samfélaginu. Á sama tíma hefur þessi náttúruvá líka haft áhrif á ferðaþjónustulandið Ísland,“ segir Sigurður Ingi við mbl.is.

Sex klukkustunda verkfall hjá flugumferðarstjórum stóð yfir í gær sem raskaði flugi þúsunda ferðamanna og annað verkfall skellur á klukkan 4 í nótt til klukkan 10 í fyrramálið. Flugumferðarstjórar hafa síðan boðað tvær vinnustöðvanir á mánudag og miðvikudag í næstu viku ef ekki hafa tekist samningar fyrir þann tíma. Fundur í kjaradeilunni hefur verið boðaður í húsakynnum Ríkissáttasemjara á morgun. 

Ætlumst til að samningsaðilar axli ábyrgð og semji

Hann segir að landsmenn hljóti að gera þá kröfu að deiluaðilar axli ábyrgðina og gangi frá skynsamlegum samningum. Spurður hvort stjórnvöld séu tilbúin til að stíga inn í deiluna segir Sigurður Ingi:

„Nei og krafa stjórnvalda og allra Íslendinga er að við ætlumst bara til að þessir aðilar axli sína ábyrgð og semji. Þegar við erum að kljást við náttúruöflin eins og við erum að gera og afleiðingar þess þá þjappa allir Íslendingar sér saman og finnst það skrítið ef það eru ekki allir tilbúnir í að vera með í því verki,“ segir Sigurður.

Hann segist ekkert hafa verið í sambandi við deiluaðilana og segir að málið sé alfarið í höndum samningsaðila og sáttasemjara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert