Krafa að samningar náist

Sigurður Ingi Jóhansson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhansson innviðaráðherra. mbl.is/Óttar

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son innviðaráðherra seg­ir að það sé krafa frá stjórn­völd­um og öll­um Íslend­ing­um að samið verði í deilu flug­um­ferðar­stjóra og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins fyr­ir hönd Isa­via.

„Þetta er al­var­leg staða og ég vona að aðilarn­ir við samn­inga­borðið geri sér grein fyr­ir ábyrgð sinni. Við erum búin að vera að glíma við nátt­úru­vá í nokkr­ar vik­ur og tak­ast á við að koma heilu sveit­ar­fé­lagi inn í sam­fé­lag­inu. Á sama tíma hef­ur þessi nátt­úru­vá líka haft áhrif á ferðaþjón­ustulandið Ísland,“ seg­ir Sig­urður Ingi við mbl.is.

Sex klukku­stunda verk­fall hjá flug­um­ferðar­stjór­um stóð yfir í gær sem raskaði flugi þúsunda ferðamanna og annað verk­fall skell­ur á klukk­an 4 í nótt til klukk­an 10 í fyrra­málið. Flug­um­ferðar­stjór­ar hafa síðan boðað tvær vinnu­stöðvan­ir á mánu­dag og miðviku­dag í næstu viku ef ekki hafa tek­ist samn­ing­ar fyr­ir þann tíma. Fund­ur í kjara­deil­unni hef­ur verið boðaður í húsa­kynn­um Rík­is­sátta­semj­ara á morg­un. 

Ætl­umst til að samn­ingsaðilar axli ábyrgð og semji

Hann seg­ir að lands­menn hljóti að gera þá kröfu að deiluaðilar axli ábyrgðina og gangi frá skyn­sam­leg­um samn­ing­um. Spurður hvort stjórn­völd séu til­bú­in til að stíga inn í deil­una seg­ir Sig­urður Ingi:

„Nei og krafa stjórn­valda og allra Íslend­inga er að við ætl­umst bara til að þess­ir aðilar axli sína ábyrgð og semji. Þegar við erum að kljást við nátt­úru­öfl­in eins og við erum að gera og af­leiðing­ar þess þá þjappa all­ir Íslend­ing­ar sér sam­an og finnst það skrítið ef það eru ekki all­ir til­bún­ir í að vera með í því verki,“ seg­ir Sig­urður.

Hann seg­ist ekk­ert hafa verið í sam­bandi við deiluaðilana og seg­ir að málið sé al­farið í hönd­um samn­ingsaðila og sátta­semj­ara.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert