Lægðin laumast hálfpartinn að okkur

Kortið sýnir vindaspá á morgun.
Kortið sýnir vindaspá á morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Lægð yfir Grænlandshafi, sem veldur rigningu og þíðu hér á Íslandi, dýpkaði talsvert í dag og er miðjuþrýstingur hennar lágur, 952 hPa. 

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir í færslu á Facebook mikill stormur verði í nótt. 

„Talsvert stríð SV- og V-vindröst slengir sér inn á landið sunnan- og vestanvert í nótt. Röstin fylgir afturbeygðu skilum lægðarinnar. Má segja að milda loftið sé þá komið hringinn. Stormur verður á meðan, stendur stutt eða í þetta 2-3 klukkustundir. Suðvestanlands frá því um kl. 3 í nótt og snemma í fyrramálið vestan- og norðvestanlands,“ skrifar Einar. 

Segir hann útlit fyrir snjókomu á hærri fjallvegum, en slyddu og rigningu á láglendi. 

Gular viðvaranir taka gildi í nótt

Einar segir að við ættum að sleppa við stríðustu vindröstin í nótt, þau verði aðeins sunnan við landið, nema í Vestmannaeyjum. 

„Upp frá því slaknar aðeins á eða um svipað leyti sem hún gengur á land, enda verður lægðin þá aðeins byrjuð að grynnast,“ skrifar Einar.

Gul veðurviðvörun tekur gildi klukkan tvö í nótt á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa, Suðurlandi og Suðausturlandi. Klukkan þrjú tekur hún gildi á Breiðafirði. Klukkan fimm tekur hún gildi á Ströndum og Norðurlandi vestra. Gilda þær allar til klukkan sex á föstudagsmorgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert