Menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir hefur endurnýjað þjónustusamning ráðuneytisins við Neytendasamtökin fyrir árið 2024. Ráðuneytið mun greiða 23,5 milljónir fyrir þjónustu Neytendasamtakanna, en með samningnum er verið að stuðla að fræðslu almennings um rétt neytenda og kæruleiðir.
Þetta kemur fram á vef Menningar- og viðskiptaráðuneytisins.
Með samningnum er Neytendasamtökunum falin umsjón Evrópsku neytendaaðstoðarinnar og meðfylgjandi rafræns vettvangs.
Þá segir í tilkynningu frá ráðuneytinu að í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um styrkingu samtaka neytenda undirritaði menningar- og viðskiptaráðherra sama dag viðauka við þjónustusamninginn á milli ráðuneytisins og Neytendasamtakanna um samstarf og aðgerðir á sviði neytendamála.
Heildagreiðslur til samtakanna, samkvæmt samningi og viðauka fyrir árið 2024 eru 23,5 milljón krónur sem er sama fjárhæð og á síðasta ári.
Með viðaukanum er stefnt að því að styrkja Neytendasamtökin til sérstakra átaksverkefna sem eru efst á baugi á sviði neytendamála hverju sinni, umfram það sem fram kemur í þjónustusamningi, segir enn fremur í tilkynningu.