Ólöglegur á kraftmiklu rafhlaupahjóli á gangstétt

Ökumaður rafhlaupahjólsins var á Kaabo Wolf Warrior 11, en það …
Ökumaður rafhlaupahjólsins var á Kaabo Wolf Warrior 11, en það kemst á 80 km/klst hraða samkvæmt framleiðanda, en 63 km/klst samkvæmt hraðaprófun sem lögreglan lét framkvæma. Slíkt tæki er skráningarskylt og ekki löglegt á gangstétt. Samsett mynd

Karlmaður hefur verið dæmdur til að greiða 80 þúsund krónur í sekt fyrir að hafa ekið rafmagnshlaupahjóli sem kemst á meira en 25 km/klst hraða á gangstétt og án ökuréttinda fyrir hlaupahjólið. Hins vegar var kröfu saksóknara um að rafhlaupahjólið yrði gert upptækt hafnað. Var það af gerðinni Kaabo Wolf Warrior 11.

Lögreglan var kölluð til í ágúst 2021 vegna umferðaóhapps við Flatahraun í Hafnarfirði. Þar hafði ökumaður bifreiðar keyrt norður Flatahraun og verið að beygja inn á bifreiðastæði þegar ökumaður á rafmagnshlaupahjóli kom akandi á gangstétt. Snarhemlaði sá síðarnefndi með þeim afleiðingum að hann hafnaði á vélarhlíf bifreiðarinnar þannig að sjáanlegt tjón var á bílnum.

Deilt um hraða rafhlaupahjólsins

Ökumaður bifreiðarinnar sagði ökumann rafhlauphjólsins hafa komið á miklum hraða og tók vitni undir og sagði hann hafa verið á „ofsa hraða“ sem vitnið taldi vera 50 km/klst. Ökumaður rafhlaupahjólsins sagðist hins vegar hafa verið á 25 km/klst hraða.

Ökumaður rafhlaupahjólsins sagðist hafa verið að prófa það í fyrsta skipti, en það væri í eigu kærustu sinnar.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að rafhlauphjólið hafi verið hraðprófað og að mesti hraði sem það komist á sé 63 km/klst. Þá er vísað til þess að á heimasíðu framleiðanda sé sagt að það komist á allt að 80 km/klst hraða.

Notast var við upptöku úr eftirlitsmyndavél í nágrenninu þar sem sást til ferða ökumannsins á rafhlaupahjólinu. Var miðað við tvo útgangspunkta og tíminn þar á milli mældur. Reyndist hann hafa farið að minnsta kosti 14,80 metra á 1,32 sekúndum, en það samsvarar 40,36 km/klst hraða.

Var skráningarskylt og ólöglegt á gangstétt

Segir í dóminum að út frá gögnum málsins sé ljóst að hægt sé að aka rafhlaupahjólinu yfir 25 km/klst hraða og þar með flokkist það sem létt bifhjól í flokki II og sé því skráningarskylt. Rafhlaupahjólið hafi hins vegar ekki verið skráð. Þá sé ekki heldur heimilt að aka slíku tæki án ökuréttinda og voru varnir mannsins um að honum hafi ekki verið kunnugt um skráningarskylduna taldar haldlausar.

Einnig er óheimilt að aka slíku tæki á gangstétt eða göngustíg og segir í dóminum að ágreiningslaust sé að maðurinn hafi verið á gangstétt.

Er hann því sakfelldur fyrir háttsemi sína og gert að greiða 80 þúsund krónur í sekt.

Saksóknari hafði farið fram á upptöku rafhlaupahjólsins, en því hafnar dómari. Vísar hann til þess að fáheyrt sé að ökutæki séu gerð upptæk vegna brota á umferðarlögum. Það sé jafnan aðeins gert vegna stórfellds eða ítrekaðs brots. Það sé afar íþyngjandi úrræði sem beri að túlka þröngt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert